Vefþjóðviljinn 93. tbl. 16. árg.
Ákefð ríkisstjórnarflokkanna og álitsgjafanna þeirra á fjölmiðlunum við að fiskveiðistjórnunarkerfinu verði breytt, segir töluverða sögu um hugarfarið sem nú ræður för við stjórn landsins.
Allir vita að Íslendingum ríður á að afla erlends gjaldeyris. Undanfarið hefur ríkið tekið mikið af lánum, meðal annars til að Már Guðmundsson geti haft sem stærstan „gjaldeyrisforða“ í kjallarnum hjá sér en ætlar þó ekki að nota í neitt. Af þessum lánum þarf að borga háa vexti úr landi. Það er áríðandi að aflétta gjaldeyrishöftum og innleiða að nýju frelsi landsmanna til að kaupa og selja þær myntir sem þeir vilja.
Og þetta er ótengt því hvaða mynt menn kunna helst að vilja notast við í framtíðinni. Íslendingar skulda í erlendum gjaldeyri og þurfa að afla hans til að borga þær skuldir og koma hér málum aftur á sómasamlegan gang.
Allir vita að gjaldeyrisuppsprettur landsins eru fyrst og fremst sjávarútvegur og orkusala. Ferðaþjónusta skilar talsverðu en skiptir mun minna máli, þótt engin ástæða sé til að vanþakka hana.
Og hvað gera stjórnvöld við þessar aðstæður? Þau eru óð og uppvæg að leggja byrðar á sjávarútveginn, byrðar sem munu draga verulega úr allri hagkvæmni hans. Þau reyna ekki einu sinni að halda því fram að tillögur þeirra til breytinga á sjávarútveginum muni skila meiri hagkvæmni og meiri gjaldeyri. Nei, allt snýst um pólitískar kreddur þeirra sem geta bara alls ekki beðið með að knýja þær fram. Íslenskt efnahagslíf getur átt sig, þeir verða að ná höggi á sjávarútveginn – á „útgerðaraðalinn“.
Og hin gjaldeyrissuppsprettan, orkusalan, hver er stefna stjórnvalda þar? Hún er skýr. Það má hvergi virkja.
Ef við völd væru sómakær stjórnvöld, sem þó vildu breyta um fiskveiðistjórnarkerfi, þá myndu þau tala fyrir slíkum breytingum. Þau myndu láta vinna tillögur að þeim og gefa fólki kost á að ræða þær fram og til baka, reikna hagkvæmni þeirra og svo framvegis. En þau myndu skilyrðislaust segja: Þó við teljum rétt, til framtíðar, að breyta kerfinu með þessum hætti, þá munum við ekki taka neina slíka áhættu með mikilvægustu atvinnugrein landsins á þeim tímum sem nú eru. Nú skulum við afla gjaldeyris, afnema höftin og greiða upp skuldirnar, og svo skulum við útkljá sjávarútvegságreininginn.
En svona hugsa núverandi stjórnvöld ekki. Þar snýst allt um að „nýta sögulega tækifærið“ sem ofstækismenn fengu eftir stjórnarskiptin og kosningarnar 2009.
Og þetta segir mikla sögu um hugarfarið hjá valdamönnum.