Vefþjóðviljinn 78. tbl. 16. árg.
Umhverfissinnar hafa brugðist ókvæða við hugmyndum um að sorpbrennslan Kalka á Suðurnesjum verði nýtt til brenna sorp frá Ameríku. Kalka hefur átt við fjárhagserfiðleika að stríða og sveitarfélögin sem standa að henni leita því eðlilega leiða til að bæta úr þeim.
Sjálfsagt er að hafa í huga í þessu samhengi að þegar vissum tegundum af sorpi er brennt myndast dýrmæt orka. Já það er þessi gamli góði samruni súrefnis og kolefnis sem yljað hefur manninum um aldir.
Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands finnur þessum hugmyndum Kölkumanna allt til foráttu.
Nú kann að vera að skortur á samningum milli landa komi í veg fyrir innflutning á sorpi að sinni. Látum það liggja milli hluta í bili enda mætti þá bæta úr því ef vilji væri fyrir hendi.
En er það ekki svolítill tvískinnungur að íslenskir umhverfissinnar leggist gegn sorpflutningum til Íslands þegar haft er í huga að þeir hafa á undanförnum áratugum krafist, hvatt til og stutt alls kyns flokkun til endurvinnslu á sorpi hér á landi – sem að miklu leyti er svo flutt úr landi til frekari meðhöndlunar, þar á meðal til brennslu?
Nú síðast þurfti húsmóðir á Akureyri áfallahjálp eftir að í ljós kom að skyr- og mysingsbaukarnir sem hún hafði samviskusamlega þvegið, þurrkað, knúsað og skilað til endurvinnslu eru fluttir úr landi til brennslu.
Sömu sögu er að segja af ýmsum öðrum úrgangi sem fellur til, allt frá pappa til úrgangsolíu og spilliefna. Hann er að miklu leyti fluttur úr landi til frekari vinnslu eða förgunar.
Í mörgum tilvikum lítur þessi endurvinnsla vel út við fyrstu sýn. Þegar nánar er að gáð vakna hins vegar ýmsar spurningar. Er ekki yfirlýst markmið með endurvinnslu að ganga hægar en ella á auðlindir jarðar? En ef það væri tilfellið, hvers vegna þurfa skattgreiðendur þá að niðurgreiða þessa starfsemi? Hvers vegna þarf endalausar skipanir að ofan og skattheimtu til að þessi bransi – sem sagður er spara dýrmætar auðlindir – standi undir sér? Ætti endurvinnslan ekki að standa undir sér ef um raunverulegan auðlindasparnað væri að ræða?
Á heimili húsmóðurinnar góðu á Akureyri þarf vatn, sápu og vinnuafl til að flokka og þvo jógúrtdollur til endurvinnslu. Fyrir utan heimili hennar stendur sérstök tunna undir flokkaða sorpið. Eitthvað kostar hún. Ekki var betur séð en sérstaka poka þyrfti undir flokkaða sorpið svo því ægi ekki öllu saman í tunnunni. Oft á tíðum er flokkaða sorpið sótt á sérstökum sorpbíl en ekki hirt með öðru óflokkuðu sorpi. Eitthvað kostar sá rúntur eða sérútbúnir bílar til að taka við flokkuðu sorpi. Í öðrum tilfellum ekur fólk sorpföndrinu sínu sjálft á sínum einkabíl á sérstakar endurvinnslustöðvar. Þær standa á dýrmætu landi innan sveitarfélaga og hefur eitthvað kostað að reisa þær, girða af og leggja að þeim vegi. Þaðan er sorpinu ekið í níðþungum gámum á gríðarstórum trukkum í böggunarstöðvar þar sem fara þarf aftur í gegnum allt saman og vinsa úr það sem farið hefur saman við af misgáningi. Svo er jógúrtdollan pressuð og bundin í bagga, sett í níðþunga gáma að nýju og flutt á trukkum niður á höfn þar sem henni er lyft um borð í flutningaskip sem flytur hana yfir hafið. Eftir allan þennan flutning, sem undantekningarlaust gefur frá sér gróðurhúsalofttegundir, er auðvitað við hæfi að dollunni sjálfri sé breytt í gróðurhúsagas með því að kasta henni á bálið í sorpbrennslu.
Hinn augljósi kosturinn er að jógúrtdollan fari með öðru heimilissorpi á haugana. Þar er ekki vitað til að hún muni valda nokkrum ama næstu aldirnar. En fyrir venjulegan sveitarstjórnarmann myndi það auðvitað þýða að hann gæti ekki hreykt sér af því að „bæjarfélagið hafi aukið endurvinnslu“ og hann yrði jafnframt af kærkomnu tækifæri til að skattleggja íbúana og ráðskast með frítíma þeirra á heimilum.