Mánudagur 19. mars 2012

Vefþjóðviljinn 79. tbl. 16. árg.

Það sjá sér auðvitað ýmsir hag í því að að skrifa meintan skort á reglum og eftirliti með íslensku bönkunum á reikning Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn var samfellt í ríkisstjórn í ríflega 17 ár fyrir hrunið og liggur því ágætlega við þessu höggi. Í þessu samhengi er svo jafnan talað um „frjálshyggjuárin fyrir hrun“.  

Þó blasir við að flestar reglurnar um fjármálamarkaði bárust hingað í stríðum straumi frá Brussel í samræmi við EES samninginn. Samningurinn var undirbúinn og leiddur í lög þegar Alþýðuflokksþingmennirnir Jón Sigurðsson og Sighvatur Björgvinsson voru viðskiptaráðherrar. Síðan tóku þrír Framsóknarmenn við viðskiptaráðuneytinu. Enginn hefur talið þá tilheyra Sjálfstæðisflokknum eða vera sérstaka frjálshyggjumenn, þótt enginn þeirra teljist heldur kommúnisti. Síðasta spölinn að hruninu sem viðskiptaráðherra fór svo Björgvin G. Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnar. Hann lokaði þessum hring á skemmtilegan hátt með því að gera Jón Sigurðsson, fyrsta viðskiptaráðherrann á „frjálshyggjuárunum“, að stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins. Eins og Vefþjóðviljinn þreytist ekki á að rifja upp var kostnaður við eftirlitið aukinn hratt á árunum fyrir hrunið, bæði áður og eftir að Björgvin og Jón tóku við.

Afskaplega væri nú gaman að fregna hvaða reglur þessir ráðherrar vinstri flokkanna vildu setja um bankana en gátu ekki vegna samstarfsflokksins í ríkisstjórn. Og hvaða eftirlit vildu þeir auka en máttu ekki vegna Sjálfstæðisflokksins?

Sérstaklega væri gaman að heyra hvaða nýju reglur Björgvin G. Sigurðsson, fyrrum Alþýðubandalagsmann og gest á fundi franskra kommúnista, langaði að setja um bankana á því eina og hálfa ári sem hann var viðskiptaráðherra en gat ekki vegna andstöðu Sjálfstæðisflokksins.

Björgvin var mjög yfirlýsingaglaður um væntanleg afrek sín þegar hann tók við sem viðskiptaráðherra vorið 2007, jafnvel um mál sem heyrðu undir aðra ráðherra. Hann ætlaði að bæta rétt neytenda og afnema vörugjöld á samlokugrilli. En man einhver eftir að Björgvin hafi ætlað sér að herða reglur um fjármálamarkaðinn umfram það sem hvort eð er átti sér stað jafnt og þétt öll „frjálshyggjuárin“ 17 fram að hruni?