Miðvikudagur 14. mars 2012

Vefþjóðviljinn 74. tbl. 16. árg.

Það þykja ekki markverð tíðindi að menn séu kjöldregnir fyrir skoðanir sínar í vinstriflokkunum.
Það þykja ekki markverð tíðindi að menn séu kjöldregnir fyrir skoðanir sínar í vinstriflokkunum.

Kristrún Heimisdóttir, fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og aðstoðarmaður tveggja ráðherra flokksins, þar á meðal þáverandi formanns hans, sagði frá því í sjónvarpsþættinum Silfri Egils að hún hefði verið kjöldregin í eigin flokki fyrir að tala opinberlega gegn landsdómsákærunni gegn Geir Haarde.

Þessi orð hennar hafa vakið merkilega litla athygli. Þau minna nefnilega á heiftina sem svo stutt er í innan vinstri flokkanna. Ákæran á hendur Geir var meira að segja ekki talin vera flokksmál, en engu að síður eru það talin drottinsvik í vinstriflokkunum ef menn heltast úr ákærendaliðinu.

Hvernig ætli fréttamenn og álitsgjafar hefðu látið ef forystumaður í Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum hefði sagst vera kjöldreginn fyrir afstöðu sína? Hvað ætli það yrði rifjað upp í mörg ár, til marks um „skoðanakúgun“ og „ógnarstjórn“ sem álitsgjafarnir eru sannfærðir um að ríki í sumum flokkum, þar sem þeir þó aldrei hafa starfað. Taki Sjálfstæðisflokkurinn til dæmis ekki upp stefnu álitsgjafanna, þá halda þeir að það sé vegna þess að einhverjir hagsmunaverðir banni flokknum það. Ef Sjálfstæðisflokkurinn lýsir sig ekki sammála álitsgjöfunum í einhverju máli, þá telja álitsgjafarnir að það sé vegna þess að í Sjálfstæðisflokknum sé bannað að ræða málið. Jafnvel þótt það hafi verið rætt þar í mörg ár.

Annað afbrigði Samfylkingarheiftarinnar brýst svo út í því að forystumenn hennar neita að hlusta á hvað seðlabankastjórar segja ef einn þeirra er gamall pólitískur andstæðingur. Einstaka fréttamenn halda að það sýni að stjórnmálamenn geti ekki orðið seðlabankastjórar, en ekki einfaldlega að fólk sem fær einstakar persónur á heilann ætti hvorki að stýra landi né fréttastofum.