Föstudagur 2. mars 2012

Vefþjóðviljinn 62. tbl. 16. árg.

Vettvangur fyrstu pólitísku réttarhalda á Íslandi.
Vettvangur fyrstu pólitísku réttarhalda á Íslandi.

Tillagan um afturköllun pólitískrar ákæru á hendur Geir Haarde, þingumræður um hana og afgreiðsla hafa verulega þýðingu. Nú liggur fyrir opinberlega að meirihluti kjörinna alþingismanna styður ekki ákæruna. Þótt ekki hafi verið gerð formleg efnisleg samþykkt um þetta á þinginu þá er þetta nú vitað.

Dettur einhverjum í hug að landsdómur geti látið eins og ekkert sé? Blasir ekki við að honum ber að fela sækjanda málsins að afla um það skýrrar efnislegrar afstöðu ákærandans, alþingis, hvort vilji hans standi til málarekstrarins? Og ef landsdómur tekur þetta ekki upp hjá sjálfum sér, að þá muni hann gera þetta eftir kröfu verjandans.

Undanfarnar vikur hafa margir þingmenn haft uppi fráleitan málflutning, í viðleitni sinni til þess að halda Geir Haarde á sakamannabekk, án þess að meirihlutavilji sé fyrir því á alþingi. Fráleitust er kenningin um heimildaleysi þingsins til að samþykkja afturköllun. Fyrst var reynt að segja að þingið mætti það ekki, en þegar búið var að blása þá þvælu af borðinu var þeirri endaleysu breytt í aðra verri, um að þingið mætti það ekki nema komið hefðu „ný gögn“. Sú kenning er auðvitað vitlausari en sú fyrri.

En jafnvel ef þessar kenningar væru réttar, að málið væri „komið úr höndum alþingis“ nema „ný gögn“ hefðu bæst við, hvað hefði þá verið að því að þingið gerði slíka samþykkt? Hún hefði þá einfaldlega ekki haft neinar afleiðingar. Mál fellur ekki niður sjálfkrafa við slíka samþykkt. Saksóknarinn hefði komið henni á framfæri við landsdóm og það hefði verið ákvörðun landsdóms hvort málið hefði verið fellt niður eða ekki. Ef landsdómur héldi – sem hann gerir auðvitað ekki – að minnsta vit væri í kenningunni, þá gerði hann auðvitað ekkert með samþykktina.