Vefþjóðviljinn 63. tbl. 16. árg.
Vefþjóðviljinn hefur stundum vikið að því nokkrum orðum hvílíkt grín svonefnd hagsmunaskráning þingmanna er. Þingmenn skrá stjórnarsetu sína í veðurklúbbum og félagsheimilum en þurfa ekki að gefa upp stórkostlegar skuldbindingar sínar við fjármálafyrirtæki, Pétur eða Pál. Það mætti allt eins sleppa þessu eins og segja aðeins hálfa söguna.
Þegar sett voru lög í desember 2010 um uppgjör lána í erlendri mynt ákvað einn þingmaður, Guðmundur Steingrímsson, að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslunni því hann ætti hagsmuna að gæta. Því miður upplýsti hann ekki um ástæðuna á sínum tíma heldur nýlega er hæstiréttur setti lögin í nokkurt uppnám. Með lögunum var fjármálafyrirtækjum sem veittu fólki lán í erlendri mynt gert að endurgreiða ákveðnum skuldurum stórfé, jafnvel milljónir króna.
Nú hafa einhverjir sóðar tekið sig til og birt veðbókarvottorð á lögheimilum þingmanna. Þar geta menn séð upphaflegar fjárhæðir lána sem ef til vill voru tekin fyrir áratugum. Þetta eru því ekki aðeins takmarkaðar og villandi upplýsingar vegna þess að aðrar skuldbindingar þingmannanna koma ekki fram heldur einnig vegna þess að veðbókarvottorðin sjálf segja takmarkaða sögu.
Þetta framtak er því engu skárra en svonefnd hagsmunaskráning þingmanna.