Vefþjóðviljinn 54. tbl. 16. árg.
Nú hafa ráðamenn ákveðið að ræsa aftur út einkanefndina sína, „stjórnlagaráð“, til að útskýra betur þá furðusmíð sem nefndin sendi frá sér og kallaði tillögu að nýrri stjórnarskrá landsins.
Það fylgir víst sögunni að „stjórnlagaráðsfulltrúarnir“ eigi að fá sérstaklega greitt fyrir að koma aftur saman og útskýra tillöguna. Hún var greinilega ekki betri en svo að það þarf að kalla allan hópinn saman til að fá hana útskýrða, og fyrir það á að greiða sérstaklega. En þetta er auðvitað aukaatriði við hliðina á því sem máli skiptir.
Allt við þessa framkvæmd er til háborinnar skammar. Látum nú vera að sinni að nokkrir stjórnmálamenn hafi af skefjalausri ósvífni notað gjaldþrot bankanna sem átyllu til að ráðast að stjórnarskrá landsins og reynt að nota almennt þjóðfélagsumrót sem skjól til að troða ýmsum meinlokum sínum inn í grunn stjórnskipunarinnar.
Allt annað við málið er einnig til skammar. Haldinn var „þjóðfundur“ og þangað stefnt þúsund manns. En ekki var haldinn neinn þúsund manna fundur heldur hundrað tíumannafundir, þar sem safnað var saman alls kyns stikkorðum dægurumræðunnar. Næst var efnt til fráleitrar kosningar til „stjórnlagaþings“. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hunsaði þá kosningu og sendi um leið afar skýr skilaboð um að hann tæki ekki þátt í stjórnarskrárbrölti hins öskrandi minnihluta.
Svo stórfelldir gallar voru á kosningunni að Hæstiréttur landsins ógilti hana einum rómi. Og þeir gallar voru engin tækniatriði eða „lagakrókar“, eins og sumir reyndu að telja sér trú um.
Lítið dæmi: Í skýrslu yfirkjörstjórnarmanns í Reykjavík um það hvernig staðið var að „talningu“ atkvæða segir meðal annars:
„Sumt innsláttarfólkið stundaði „skapandi“ úrlestur, giskaði á tölur, og breytti jafnvel svo passaði við frambjóðanda. Fyrir kom að eingöngu síðasta tala var „misskráð“ hjá kjósanda og tók innsláttarfólkið sér þá stundum vald til að setja inn „rétta“ tölu.“
Þegar „talning“ atkvæða fer fram með þessum hætti – og á við um þúsundir kjörseðla – þá sjá næstum allir að það er ekkert smáatriði að engir eftirlitsmenn fylgdust með talningunni, sem, gegn lögum, fór fram fyrir luktum dyrum. Og eru þá aðeins nefnd tvö af þeim atriðum sem Hæstiréttur tiltók þegar hann ógilti kosninguna.
Það er svo óþarft að taka fram, að þegar niðurstaða Hæstaréttar var tekin til umfjöllunar í stjórnmálaþætti Ríkissjónvarpsins var fenginn þangað einn viðmælandi, sem hafði skrifað langa romsu þar sem hann reyndi, án árangurs, að hrekja niðurstöðuna. Umsjónarmaður þáttarins tók undir allt hjá viðmælandanum, en svona er nú bara hlutleysi Ríkissjónvarpsins undir stjórn Páls Magnússonar.
En hvernig brást svo Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin við einróma niðurstöðu Hæstaréttar? Þau létu eins og ekkert hefði gerst. Þau breyttu bara um nafn á stjórnlagaþinginu, kölluðu það stjórnlagaráð og völdu sjálf alla þátttakendur þangað, lið sem hafði „náð kjöri“ með ógildri kosningu þar sem talið hafði verið með „skapandi úrlestri“ talningarmanna, sem tóku sjálfir upp á því að „setja inn „rétta“ tölu“ á kjörseðlana.
Sumir hafa í þrjú ár talað um að mikilvægt sé að bæta stjórnsýslu og auka virðingu fyrir því að staðið sé að málum með formlega réttum hætti. Sumir halda ennfremur að meginniðurstaða „Rannsóknarskýrslunnar“, sem er helgirit hjá þeim, hafi verið ákall um bætt vinnubrögð að því leyti.
Þeir sömu ættu að sjá að það er algert grundvallaratriði, vilji menn auka virðingu fyrir vinnubrögðum og reglum, að „tillögum stjórnlagaráðs“ verði komið fyrir í þeirri einu körfu sem þær eiga heima. Að því búnu geta menn, ef þeir endilega vilja, reynt með réttum hætti að gera vitrænar breytingar á stjórnarskránni. En síðustu þrjú árin hefur ekki eitt einasta skref verið stigið í þá átt.