Vefþjóðviljinn 53. tbl. 16. árg.
Eins og litla en vel æfða leikritið sem Guðmundur Steingrímsson og Össur Skarphéðinsson settu á svið í þinginu í gær ber með sér verður á næstu misserum reynt að efna til fegurðarsamkeppni milli evrunnar og krónunnar.
Guðmundur spurði Össur hvort Íslendingar gætu ekki fljótlega tekið upp evru og hvort þá myndi ekki drjúpa smjör af hverju strái.
Eins undarlegt og það er nú í ljósi vandans sem Evruríkin hafa glímt við undanfarið verður reynt að lokka Íslendinga inn í Evrópusambandið með evrunni. Önnur beita er ekki í boði.
Um leið hefur Samfylkingin af því hagsmuni að landsmenn fái fyrir fullt og fast andúð á verðtryggðu krónunni, verðbólgunni og höftunum. Sífelldar skattahækkanir gegna mikilvægu hlutverki í þessu samhengi. Annars vegar leiða þær af sér hækkanir á vísitölubundnum lánum heimila. Hins vegar draga þær máttinn út atvinnulífinu svo störfum fækkar og menn geta síður unnið gegn skattahækkunum og hærri afborgunum lána.
Það er ekki gott að við völd sé stjórnmálaflokkur sem hefur svo beina hagsmuni af því að hækka skatta, þvælast fyrir atvinnulífinu og viðhalda höftunum.