Þriðjudagur 21. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 52. tbl. 16. árg.

Í síðustu viku hækkaði matsfyrirtækið Fitch ratings lánshæfismat Íslands.

Ætli það hafi ekki glatt stjórnarþingmennina og álitsgjafa Ríkisútvarpsins sem boðuðu eymd og efnahagslega skelfingu á Íslandi ef ekki yrði gengist undir Icesave-ánauðirnar, sem ríkisstjórnin og fjölmiðlamenn hennar reyndu að koma á herðar landsmanna?

En hvernig brugðust fréttastofurnar við hækkuðu lánshæfismati? Voru rifjaðar upp fullyrðingar stóryrtra stjórnarþingmanna og alvarlegra ráðherra sem voru auðvitað með matsfyrirtækin á grýlulistanum hjá sér? Stjórnarandstaðan var sökuð um að „tala Ísland niður í ruslflokk“, þegar hún andæfði Icesave II. Jóhanna Sigurðardóttir boðaði „efnahagslegt öngþveiti“ ef Icesave III yrði ekki samþykkt. Gylfi Magnússon boðaði að Ísland yrði að „Kúbu norðursins“ ef Icesave II yrði ekki samþykkt. Þórólfur Matthíasson var enn svartsýnni. Steingrímur J. Sigfússon vildi ekki hugsa þá hugsun til enda hvað gæti gerst ef Icesave II yrði ekki samþykkt fyrir einhverja helgi í desember 2009.

Varð nýleg lánshæfishækkun fjölmiðlamönnum tilefni til að rifja upp spekina í þessum spámönnum? Eða þykir þetta fólk alltaf jafn eftirsóknarverðir viðmælendur í áróðursþáttunum?

Í Bóksölu Andríkis fæst bókin Icesave samningarnir, afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson, fyrrverandi ritstjóra Viðskiptablaðsins. Þar má fræðast um þessa og marga aðra heimsendaspádóma „sérfræðinganna“, sem eru í sífelldum viðtölum í Speglinum.