Vefþjóðviljinn 32. tbl. 16. árg.
Á undanförnum árum hefur orðalagið að „búið sé að tryggja fjármögnun“ orðið sífellt vinsælla um alls kyns verkefni á vegum ríkis og sveitarfélaga. Eða að „rætt sé við lífeyrissjóðina um að koma að fjármögnun.“
Þetta hljómar enda mjög vel í fyrstu. Þegar hrekklausir skattgreiðendur heyra þetta gætu þeir jafnvel hugsað með sér að þarna sé vel að verki staðið. Fjármagnið komið og nú eigi bara eftir að ræsa vinnuvélarnar.
En kannski hljómar þetta ekki jafn vel þegar það er haft í huga að Grikkland var um árabil „búið að tryggja sér fjármagn“ til að reka opinberar stofnanir og velferðarkerfi. Margir húsnæðiskaupendur á Flórída á árunum fyrir fjármálakrísuna „tryggðu sér einnig fjármagn“ til kaupanna þótt þeir hefðu nær engar tekjur.
Það er nefnilega oftast eitt að tryggja sér fjármagn en nokkuð annað að greiða það til baka.
Um þetta snýst deilan á Alþingi um Vaðlaheiðargöngin.
Annars vegar er hópur þingmanna sem vill ana af stað með gröftinn með það eitt í farteskinu að búið sé að herja út lánsfé til framkvæmdanna. Hins vegar eru þingmenn sem gera sér grein fyrir að greiða þarf af lánum.
–
Í fyrradag urðu Vefþjóðviljanum á þau mistök að segja hinn alræmda stráka- og stelpuís frá Mjólkursamsölunni. Það hefur nú verið leiðrétt eftir ábendingu af Bitruhálsinum. Framleiðandinn er að sjálfsögðu Ms Ís.