Þriðjudagur 31. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 31. tbl. 16. árg.

Fréttablaðið birti í gær á forsíðu glænýjar tölur frá FME um fjölda fyrirtækja í eigu bankanna.

Tölur FME sýna að nú á fjórða ári frá banka- og gjaldmiðilshruni eru enn 125 fyrirtæki í eigu banka og fjármálafyrirtækja og ekki nema rétt þriðjungur þeirra kominn í sölu. 

Skýr lög gilda um fjárfestingu fjármálafyrirtækja í félögum í óskyldum rekstri, þar á meðal í fullnustueignum. Þau ber að selja innan 12 mánaða nema til þess fáist undanþága frá FME.

Þar sem innstæður eru nú að fullu tryggðar af skattgreiðendum hefur aldrei verið jafn mikil þörf á að lögum um fjárfestingar fjármálafyrirtækja í óskyldum rekstri sé framfylgt. 

Annars vegar til að minnka þá áhættu sem skattgreiðendur bera með innstæðutryggingunni, en langvarandi eignarhald á fyrirtæki er mun áhættusamara en lánveiting. Hin ástæða þess að þessum reglum ætti að vera framfylgt af festu er til að minnka bjögun á samkeppni. Bankarnir njóta á ári hverju tugmilljarða niðurgreiðslu á fjármagnskostnaði sínum með innstæðutryggingunni og gjaldeyrishöftunum. Þar að auki eru aðgangsþröskuldar að fjármálastarfsemi mjög háir vegna regluverks ríkisins þannig að bankar eru ekki eiginleg fyrirtæki í samkeppnisrekstri heldur þrífast á aðstöðuhagnaði byggðum á löggjöf. 

Og loks fengu bankarnir með löggjöf allar bestu eignir gömlu bankanna á niðursettu verði. Það er því hætta á að bankarnir noti þessa aðstöðu sína til að skapa fyrritækjum í sinni eigu stöðu á markaði, hvort heldur það er með vísvitandi hætti eða þá með undanlátssemi við stjórnendur þeirra eða skorti á aðhaldi. Bankarnir geta mismunað fyrirtækjum þar sem þeir stýra aðgangi að niðurgreiddu fjármagni. 

Það er því nauðsynlegt að losa um eignarhald bankanna á rekstrarfélögum til að koma á eðlilegu rekstrarumhverfi. Margir telja það sjálfsagt einkennilegan lærdóm af bankahruninu að fela bönkum rekstur enn fleiri fyrirtæki en fyrir hrun og þótti þó mörgum nóg um þá. 

En þessi sjónarmið ná ekki inn á forsíðu Fréttablaðsins, þvert á móti lýsir Gunnar Andersen, forstjóri þess yfir ánægju með árangurinn. En hvar eru nú allir þeir sem gagnrýna aðhalds- og gagnrýnisleysi fyrir hrun, þótt þögn þeirra hafi verið jafn æpandi þá og nú? Og hvers vegna er forstjóri FME ekki einfaldlega spurður hvers vegna hann hafi veitt svona margar undanþágur? 

Stjörnublaðamaðurinn Þórður Snær Júlíusson, eða Doddi eins og hann er kallaður af spunameisturum ríkisstjórnarinnar, skrifaði skúbbið á forsíðu Fréttablaðsins í gær. Hann taldi ekki ástæðu til að spyrja frekar og fær vafalítið að vera áfram helsti skúbbert FME.