Vefþjóðviljinn 30. tbl. 16. árg.
Af hverju er alltaf látið undan rugludöllum?
Á dögunum setti Emmessís á markað ís sem kallaður var stelpuís og annan strákaís. Það var svo eins og við kvenmanninn mælt að einhverjir tóku andköf yfir þessu. Upp hófst söngur um staðalímyndir og að eitthvað væri ótrúlegt árið 2012 og bla bla.
Eftir einn dag af æsingi gerði Emmessís sér upp iðrun, kvaðst hafa gert skelfileg mistök og hætti að selja ísinn.
Varla er hægt að búast við því að þeir sem þarna unnu sigur, knúnir af misskilningi sínum, láti við þetta sitja.
Fjöldi verslana stillir upp vörum og kveðst fyrst og fremst höfða til annars kynsins. Fataverslanir eru skýrt dæmi. Pils og kjólar eru þannig algeng í kvenfataverslunum en buxur og hálsbindi fást í herradeildum. Sama má segja um ýmsar snyrtivörur. Í snyrtivöruverslunum er gjarnan lítill rekki merktur herrum og geta slíkir herrar þar fengið apríkósusmyrsl til að rjóða á kinnar sínar.
Er þetta ekki byggt á staðalmyndum og þar með auðvitað bannvara árið 2012? Hlýtur þessu ekki að verða mótmælt af mikilli tilfinningasemi? Hvers vegna ættu meinlokumenn að takmarka sig við ís?
En skýringin á því að Emmessís lét undan rugludöllunum er einföld. Fyrirtæki gera það yfirleitt. Fyrirtæki sem er í rekstri vill ekki sitja undir neikvæðri umræðu ef hana má forðast. Og það veit sem er, að enginn mun andmæla ruglinu. Ekki einn einasti maður mun hringja upp í ísgerð og segjast hætta að kaupa af henni ísinn ef látið verður undan meinlokumönnunum sem halda að stelpuís sé hneyksli en sjá ekkert athugavert við sérstök kvenföt.