Helgarsprokið 29. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 29. tbl. 16. árg.

Árið 1994 tókst R-lista vinstri manna að ná völdum í Reykjavík með ítrekuðum loforðum að hækka ekki skatta. Í blaði R-listans fyrir kosningarnar var sagt frá samtali, sem átti sér stað á förnum vegi á milli þáverandi borgarstjóraefnis listans og ótilgreinds borgarbúa. Borgarbúinn spyr „hvort það sé rétt að Reykjavíkurlistinn ætli að hækka skatta.“

„Nei,“ segir Ingibjörg Sólrún. „Við ætlum ekki að hækka skatta. Af hverju heldurðu það?“

„Ja, vinnuveitandi minn sagði okkur starfsmönnum sínum það,“ segir maðurinn.

Ingibjörg lofaði reyndar ekki að leggja ekki á nýja skatta svo eitt af fyrstu verkum R-listans var að leggja á holræsagjald. Eins og allir vita eru skattar með nýjum nöfnum ekki hækkun á sköttum. Mikilvægt er þó að finna frumleg nöfn eins og holræsagjald, kolefnisgjald og auðlegðarskattur. Fasteignaskattur, orkuskattur og eignaskattur eru aftan úr grárri forneskju. Holræsagjald var því lagt á Reykvíkinga í fyrsta skipti árið 1995. Gjaldið miðaðist við fasteignamat og var 0,15% af því. Í raun var því um hækkun á fasteignaskatti að ræða, sem 1995 líkt og árið áður var 0,421%. Því má segja að með þessu gjaldi hafi R-listinn hækkað álagningarprósentu fasteignaskatts um 36%.

Eins og flestir nýir skattar hvarf holræsagjaldið ekki. Fáir skattar hafa hins vegar átt jafn skuggalega sögu og holræsagjaldið, sem gerir það að sannkölluðum skíta-skatti. Meðfylgjandi mynd sýnir þróun fasteignaskatts og holræsagjalds fyrir ákveðna fasteign í Reykjavík. Allar tölur eru á verðlagi í janúar 2012.

Holræsagjaldið lifði góðu lífi næstu árin eftir að það var sett á Í valdatíð R-listans var álagningarprósenta þess lækkuð tvisvar. Óvænt tilviljun réði því sennilega að það var kosningaárin 2002 og 2006. Vegna hækkandi fasteignaverðs og þar með hækkandi fasteignamats var skítaskatturinn þó verulega hærri 2006 en þegar hann var fyrst lagður á 1994.

Sjálfstæðismenn gagnrýndu holræsagjöldin harðlega. Höfðu þeir uppi heitstrengingar um að lækka gjöldin og fella niður kæmust þeir til valda. Lítið varð um efndir þann hluta síðasta kjörtímabils sem þeir voru við völd.

Árið 2006 tók Orkuveita Reykjavíkur við rekstri fráveitu Reykjavíkurborgar. Holræsagjald var þá lækkað með vísan til hagræðis sem af þessu hlytist en alls ekki vegna kosninganna um vorið. Orkuveitan sá auðvitað að óveðsett holræsakerfi væri dautt fé og tók því erlend lán með veði í ræsunum. Má reyndar halda því fram að það sé vænlegra að taka veð í skít en í froðu eins og vinsælt var á þeim tíma er Reykjavíkurborg seldi Orkuveitunni skólprörin.  En auðvitað var þetta ekki alveg raunin heldur var í raun verið að taka veð í skattgreiðslum Reykvíkinga. Alltaf lá fyrir að ef dæmið færi illa tækju Reykvíkingar upp veskið.

Einhvers staðar á leiðinni komst svo einhver að því að holræsagjald væri svo mikið 1994 og nafni skattsins var breytt í fráveitugjald.

Komið er að skuldadögum, Orkuveitan er afar illa stödd og þá er það eitt til ráða að hækka skítaskattinn. Orkuveitan ákveður upphæð skattsins, leggur hann á og innheimtir. Hefur einhver heyrt minnst á 77. grein stjórnarskrár lýðveldisins? Þar segir nefnilega: „Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.“ 

Vegna þessa framsals skattlagningarvalds til Orkuveitunnar mátti eigandi fasteignarinnar sem fjallað er um hér að ofan þola 73% hækkun fráveitugjalds milli áranna 2010 og 2011 eða um 40 þúsund krónur. Nú svo komið eftir síðustu hækkun skítaskattsins að hann er orðinn hærri en fasteignaskatturinn, eftir að hafa næstum því þrefaldast að raunvirði frá því að hann var fyrst lagður á og meira en sexfaldast að krónutölu!