Vefþjóðviljinn 28. tbl. 16. árg.
Í fréttum vikunnar var eins og svo oft áður sagt frá fjármálum stjórnmálaflokkanna. Í þessum fréttum kemur fram að flokkarnir fái árlega nokkur hundruð milljónir króna frá skattgreiðendum – þau ríkisútgjöld voru aukin hressilega eins og öll önnur á nýfrjálshyggjuárunum fyrir bankahrun – en skuldi engu að síður mörg hundruð milljónir króna. Til viðbótar er svo jafnan sagt frá því að Akrabakarí hafi stutt þennan flokk um 50 þúsund króna úttekt í vínarbrauðum og heildverslun Birgis stutt hinn flokkinn um 75 þúsund krónur.
Allt eru þetta upplýsingar sem ný lög um fjárreiður stjórnmálaflokka og frambjóðenda frá árinu 2006 – frá nýfrjálshyggjuskeiðinu þegar öll lög voru afnumin – skylda flokkana til að leggja fram.
En hverjum skulda flokkarnir mörg hundruð milljónir? Eru gjalddagar eins og hjá ríkissjóðum evruríkjanna á næstu grösum? Og á hvaða kjörum eru lánin? Hver prósenta í vexti af hundrað milljónum króna er ein milljón króna á ári. Styrkurinn frá Akrabakaríi vegur ekki ýkja þungt á móti því. Lánveitendur geta verið hæstu styrkveitendur án þess að nokkuð sé upplýst um það, hvorki hverjir lánveitendur séu né hvað kjör þeir bjóði flokkunum.
Annað þessu tengt er að Vefþjóðviljinn hefur að undanförnu sagt frá nokkrum hliðarfélögum vinstriflokkanna. Útgáfufélagið Smugan ehf, Alþýðuhús Reykjavíkur ehf, Fjálar, Fjölnir og Sigfúsarsjóður eru í alls kyns fjármálagerningum með vinstri flokkunum án þess að þessir flokkar gagnsæisins upplýsi um það að gagni. Og ekki spyrja fjölmiðlarnir.
Á meðan eru hjónin í Akrabakarí hengd upp til sýnis fyrir að styðja flokkinn sinn með bakkelsi fyrir kosningar.