Laugardagur 14. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 14. tbl. 16. árg.

Lausar lóðir á Völlunum. Halda sveitarfélögin uppi lóðaverði til að fegra bækur sínar?
Lausar lóðir á Völlunum. Halda sveitarfélögin uppi lóðaverði til að fegra bækur sínar?

Eitt af því sem gagnrýnt hefur verið við rekstur bankanna eftir að þeir lögðu upp laupana haustið 2008 er að þeir hafi ekki sýnt rétt eignaverð í bókum sínum og hafi haldið uppi verði eigna með einhvers konar gervi-viðskiptum. 

Þetta er ekki gott ef satt reynist enda virðist engin mæla þessu bót. Því mætti ætla að menn kæmust ekki upp með kúnstir af þessu tagi á nýja fína Íslandi.

Vefþjóðviljinn hefur þó áður vakið athygli á því að Íbúðalánasjóður ríkisins lúrir á mörg hundruð íbúðum sem hann vill ekki setja í sölu af ótta við almenna verðlækkun á húsnæði sem þar með hefði neikvæð áhrif á eignastöðu sjóðsins. Hér er því um að ræða einskonar gervi-ekki-viðskipti til að hysja bækurnar upp um sjóðinn. Þó er í 1. grein laga um húsnæðismál sagt að tilgangur þeirra sé „að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“ Hvernig það samræmist tilraunum Íbúðalánasjóðs til að halda húsnæðisverði uppi með handafli er óskiljanlegt.

Í fylgiblaði Morgunblaðsins á fimmtudaginn var rætt við Guðmund H. Jónsson forstjóra BYKO um nýjar áherslur félagsins en það stendur nú frammi fyrir samkeppni frá tveimur erlendum byggingavöruverslunum, hinni þýsku Bauhaus og dönsku Bygma sem keypt hefur Húsasmiðjuna.

Guðmundur segir að komið sé að viðhaldi og endurbótum hjá mörgum en þröngur fjárhagur komi í veg fyrir að menn fari að stað. „Því er mikilvægt að stjórnvöld breyti stefnu sinni, slaki á skattheimtunni og geri fólki raunverulega kleift að fara í fjárfestingar, litlar jafnt sem stórar.“

Svo bætir Guðmundur við:

Byggingaframkvæmdir eru langt ferli en frá því sótt er um lóð uns fólk flytur inn í nýtt húsnæði líða aldrei minna en tvö ár. Nú myndu margir vilja hefja framkvæmdir en þá kemur til að lóðaverð er alltof hátt. Óseldar lóðir eru mjög hátt skráðar í bókhaldi sveitarfélaganna sem geta hreinlega ekki slegið af verði öðruvísi en svo að efnahagsreikningur þeirra breytist í stórum atriðum til hins verra. Lóðirnar eru skráðar á einhverjum tölum sem eru mun hærri en markaðsaðstæður í dag bjóða uppá. Ég held að því verði sveitarfélögin að hugsa málin alveg upp á nýtt og slá af verði svo lóðirnar seljist og aftur verði farið að byggja.