Föstudagur 13. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 13. tbl. 16. árg.

Hreyfingin er varadekk kerfisins sem hún þykist berjast gegn.
Hreyfingin er varadekk kerfisins sem hún þykist berjast gegn.

Ein birtingarmynd þess sem gerðist á Íslandi mánuðina eftir bankahrun, er þingflokkurinn Hreyfingin, sem áður hét Borgarahreyfingin áður en hún klofnaði í þrennt. Þingmenn hennar hafa stært sig af því að hafa barið þinghúsið utan og verið skömmu síðar komnir þangað inn sem kjörnir fulltrúar. Inni á þingi telja þeir sig í sérstakri herferð gegn „Kerfinu“, en eru svo á sama tíma varadekk ríkisstjórnar þaulsætnustu þingmanna lýðveldissögunnar, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar; ríkisstjórnar sem byggð er á algeru foringjaræði, pukri og bakherbergjaákvörðunum.

Liður í baráttu þingmanna Hreyfingarinnar gegn því sem þeir halda að sé „Kerfið“, er ákefð þeirra í að fyrrverandi ráðherrar verði dregnir fyrir landsdóm. Hreyfingarmenn eru alveg að fara yfirum núna, þegar þeir sjá fram á það að Alþingi reyni að ná af sér hluta skammar sinnar og afturkalla ákæru sína á hendur Geir Haarde. Þingmenn Hreyfingarinnar hafa því ítrekað boðað, bæði nú í vikunni sem og fyrir áramót, að þeir muni leggja til á þingi að tekin verði fyrir að nýju tillaga um að ákæra ráðherrana þrjá, Ingibjörgu Sólrúnu, Björgvin G. og Árna, sem Alþingi hafnaði fyrir rúmu ári að ákæra. Fréttamenn hafa engar athugasemdir gert við þennan málflutning.

Þetta er dæmigert fyrir umræðu á Íslandi. Ákæra fyrir landsdómi er byggð á lögum um ráðherraábyrgð. Í 14. gr. laganna segir: „Málshöfðun eftir lögum þessum getur eigi átt sér stað, ef 3 ár líða frá því, er brot var framið, án þess að Alþingi hafi samþykkt ályktun um málshöfðunina. Sök fyrnist þó aldrei fyrr en 6 mánuðir eru liðnir frá því, að næstu reglulegu alþingiskosningar, eftir að brot var framið, fóru fram.“ Jafnvel þótt einhver annar en þingmenn Hreyfingarinnar og Björn Valur Gíslason héldi að umræddir ráðherrar hefðu í raun framið refsiverð brot sumarið 2008, þá væri fyrir löngu um seinan að efna til slíkrar ákæru. Allt tal um að taka að nýju fyrir tillögu um ákæru á hendur ráðherrunum er því byggð á fullkominni vanþekkingu á ráðherraábyrgðarlögunum – sem segir talsvert um þá lagalegu fótfestu sem þingmennirnir höfðu á sínum tíma þegar þeir samþykktu að ákæra Geir Haarde fyrir brot á sömu ráðherraábyrgðarlögum.

Kannski er flestum orðið sama um svona atriði. Svona eins og það tók álitsgjafana ekki nema tvo daga að sannfæra sjálfa sig um að hárréttur úrskurður Hæstaréttar Íslands, sem fleygði marklausri stjórnlagaþingskosningunni þeirra út í hafsauga, væri bara einhver sparðatíningur og „lagatækni“ og þess vegna þyrfti ekki að fara eftir honum nema í orði kveðnu. Í íslenskri þjóðmálaumræðu hefur síðustu árin tíðkast að fullyrða bara hvað sem er, og varla nokkur sem stendur í því að reyna að leiðrétta rangfærslurnar sem standa upp úr þingmönnum, fjölmiðlamönnum og álitsgjöfum, og fá yfir sig gusurnar sem því fylgir.