Föstudagur 30. desember 2011

Vefþjóðviljinn 364. tbl. 15. árg.

Í byrjun desember sagði Vefþjóðviljinn lítillega frá tveimur félögum sem eiga húsnæði Samfylkingarinnar við Hallveigarstíg í Reykjavík og styðja flokkinn einnig með fjárframlögum. Ekki er vitað hvað Samfylkingin greiðir þessum félögum í húsaleigu því Samfylkingin hefur stefnt að því frá stofnun sinni árið 2000 að opna bókhald sitt og hafa allt uppi á borðum. Allt tekur sinn tíma.

Annað þessara sérstæðu félaga, Sigfúsarsjóður, skilar ekki ársreikningum til ársreikningaskrár en samkvæmt skipulagsskrá er því ætlað að „reisa og reka húsnæði fyrir Sósíalistaflokkinn eða hvern þann sósíalistískan fjöldaflokk, sem tekur við hlutverki hans að dómi sjóðsins, eða að vinna að framgangi sósíalismans á Íslandi á annan hátt.“ Sigfúsarsjóður tók að sögn Margrétar Frímannsdóttur þátt í því að láta tugmilljóna skuldir Alþýðubandalagsins hverfa þegar flokkurinn sameinaðist Alþýðuflokki í Samfylkingu. Aðeins þeir sem halda um stjórn Sigfúsarsjóðs geta upplýst hvaðan stofnfé kom í sjóðinn en margt sem íslenskir sósíalistar baukuðu á þeim tíma sem sjóðurinn var stofnaður var fjármagnað af alræðisstjórninni í Kreml. Í stjórn sjóðsins sitja aðeins góðir og gagnsæir Samfylkingarmenn. Síðast er fréttir bárust af stjórnarkjöri í sjóðnum voru Ari Skúlason og Jóhann Ársælsson meðal stjórnarmanna. 

Hitt félagið er Alþýðuhús Reykjavíkur ehf. og virðist einnig sérhæfa sig í styrkja og skjóta skjólshúsi yfir íslenska vinstriflokka. Helstu eigendur Alþýðuhúsa Reykjavíkur eru „sjálfseignarfélögin“ Fjálar og Fjölnir sem hvergi finnast á skrá hjá hinu opinbera. Það er stefna Samfylkingarinnar að fá Fjálar og Fjölni upp á borðið. 

Alþýðuhús Reykjavíkur ehf. átti lengi húsnæði Alþýðuflokksins við Hverfisgötu 8 – 10 en seldi það árið 2001. Samkvæmt ársreikningum félagsins keypti það aðra fasteign árið 2003 á 121 milljón króna og seldi aftur árið 2006 fyrir 122,5 milljónir króna. Er það vissulega einstakt að hafa keypt og selt húsnæði á þessu árabili sem hækkaði aðeins um 1,2% frá kaupum til sölu. Kannski vildu Alþýðuhús bara standa undir nafni og neituðu að hagnast á húsnæðisbólunni.

En hvað um það.

Það sem kemur Vefþjóðviljanum ekki á óvart er að hvorki dagblöðin né útvarpsstöðvarnar virðast hafa áhuga á þessum huldufélögum og húsnæðisfléttum bakhjarla Samfylkingarinnar. 

Ætli stæði á viðbrögðunum fjölmiðla ef sjóður aftan úr kalda stríðinu og huldufélög á borð við Fjálar og Fjölni væru tengd Sjálfstæðisflokknum?