Fimmtudagur 29. desember 2011

Vefþjóðviljinn 363. tbl. 15. árg.

Vermont.
Vermont.

Án hagnýtingar olíu, kola og gass er ekki víst að maðurinn þyrfti að hafa frekari áhyggjur af eyðingu skóga, þeir væru löngu horfnir út í loftið í gegnum skorsteina af eldstæði hans. Rétt eins og raunin varð á Íslandi eftir landnám. Í nokkur hundruð þúsund ár, fram undir lok 19. aldar, var eldiviður það sem maðurinn ornaði sér helst við.

Reyndar er vart hægt að gera ráð fyrir því að maðurinn hefði fjölgað sér svo hratt ef jarðefnaeldsneytis hefði ekki notið við undanfarna öld. Fátt hefur bætt lífsskilyrði hans með jafn afgerandi hætti og þessi lengstum ódýru kolvetni úr iðrum jarðar.

Þrátt fyrir að olían hafi faðmað tré með þessum hætti heldur leitin að öðrum orkugjafa áfram. Af þeim er nægt framboð en fáir keppa við olíuna í verði og þægindum. Þannig bárust af því fréttir á dögunum að loðnubræðslur á sjálfu landi hinnar endurnýjanlegu orku notuðu fremur olíu en rafmagn sem orkugjafa. Þar kemur fleira en verð til sögunnar því orkunotkun í bræðslum er mjög sveiflukennd. Orka í dreifkerfum rafveitna býður ekki eftir notandanum eins og olía á tanki. Því miður er það þannig með marga orkugjafana að þótt þeir geti keppt við olíuna í verði eru þeir ekki eins sveigjanlegir og olían.

Óhætt er að segja að í þessari leit hafi margir orðið fyrir vonbrigðum með kosti á borð við vindmyllur og sólarrafhlöður, þótt gríðarlegum fjármunum skattgreiðenda hafi varið varið til þróunar þeirra. Staðbundnar lausnir skjóta þó upp kollinum hér og þar.  

Til að mynda hafa ýmsar stofnanir og fyrirtæki í Vermont ákveðið að leita ekki langt yfir skammt og nýta nú við til kyndingar. Í Vermont er mikið skógarhögg og timburiðnaður og því fellur til gríðarlegt magn af spæni, sagi, hvers kyns afsagi og ónothæfum smíðavið. 

Samkvæmt nýrri skýrslu frá PERC um málið er verð á þessum viðarafgöngum lægra en á öðrum orkugjöfum eins og olíu og gasi. En þar með er ekki öll sagan sögð. Katlar sem brenna viðarkurli eru dýrir og  mikið rúm þarf til að geyma viðinn. Það kann einnig að koma ýmsum á óvart að útblástur frá viðarbrennslu inniheldur meira af brennisteins- og kofnunarefnisssamböndum en frá gasbrennslu og meira sót en bruni á hinni úthrópuðu olíu gefur frá sér.