Miðvikudagur 28. desember 2011

Vefþjóðviljinn 362. tbl. 15. árg.

Íslenskir fjölmiðlamenn taka stjórnmálamenn ólíkum tökum. Sumir eru hundeltir og mega vart opna munninn áður en álitsgjafarnir eru farnir að snúa út úr orðum þeirra, með vísvitandi rangfærslum í bland við sitt venjulega skilningsleysi. Aðrir fá að gapa og gapa án þess að nokkuð þyki athugavert.

Össur Skarphéðinsson er einn þeirra sem fæstir fjölmiðlamenn telja sig hafa nokkrar eftirlitsskyldur við. Í Morgunblaðinu var í dag vakin athygli á því að í nýlegu kastljósviðtali, þar sem Össur malaði og malaði, hefði utanríkisráðherra landsins látið svo um mælt að nýlegu fiskveiðistjórnarfrumvarpi sjávarútvegsráðherra, samráðherra Össurar, mætti helst líkja við meiriháttar „bílslys“, enda hefði Össur auðvitað ekki lagt frumvarpið fram. Morgunblaðið vekur í þessu samhengi athygli á þeirri ábendingu Óla Björns Kárasonar, í nýjasta hefti Þjóðmála, að í greinargerð frumvarpsins sé sérstaklega tekið fram að frumvarpið, sem Össur Skarphéðinsson kallar „bílslys“, hefi verið unnið „undir formerkjum mjög veigamikils samráðs milli stjórnarflokkanna. Að því samráði komu sex stjórnarþingmenn allt frá því í nóvember 2010, ásamt fjórum ráðherrum sem að málum komu á seinni stigum.“

Nú verður svo sem ekki ætlast til þess að einstakir fréttamenn hafi slíkt á hraðbergi, þó þeir sem fylgjast með hljóti raunar að vita eitt og annað um það hvernig unnið var að fiskveiðistjórnarfrumvarpinu, sem oddvitar ríkisstjórnarinnar hafa lýst sem stærsta máli síðari tíma. En jafnvel þótt fréttamönnum sé fyrirgefið að benda utanríkisráðherranum ekki á þetta, um leið og hann kemur „bílslysinu“ á samráðherra sinn Jón Bjarnason einan, þá útskýrir það ekki hvers vegna fréttamenn fjalla ekki um málið síðar. Þegar utanríkisráðherra landsins lýsir stjórnarfrumvarpi sem „bílslysi“, og tekur fram að hann hafi sko hvergi komið nærri, þá hljóta fréttamenn að kanna málið. Og sjá þá, fyrir utan það augljósa að málið var stjórnarfrumvarp og á pólitíska ábyrgð ríkisstjórnarinnar, að í greinargerð var sérstök langloka um hið mikla og nána samstarf stjórnarflokkanna um „bílslysið“.

En fréttamenn og álitsgjafarnir hafa engan áhuga á því að herma nokkurn hlut upp á Össur Skarphéðinsson.