Þriðjudagur 27. desember 2011

Vefþjóðviljinn 361. tbl. 15. árg.

Ja hérna. Tók ekki Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar þátt í því fyrr á árinu að hrella landa sína með spádómum um að lokað yrði á Íslendinga í erlendum lánastofnunum ef þeir undirgengjust ekki Icesave ánauðina? Þá var gefið í skyn að ekki fengjust lán til Búðarhálsvirkjunar, sem voru þó svipuð fjárhæð og það sem Íslendingar áttu að greiða Bretum og Hollendingum í vexti í erlendri mynt fyrir árslok. 

Íslendingar höfðu þessar hótanir að engu.

Nú berst þessi tilkynning frá Landsvirkjun:

Landsvirkjun hefur skrifað undir sambankalán á alþjóðlegum bankamarkaði. Lánið er fjölmynta veltilán til þriggja ára að fjárhæð 200 milljónir Bandaríkjadala.

Landsvirkjun getur dregið á lánið og endurgreitt eftir þörfum.  Lánið er með framlengingarheimild um tvö ár og getur lánstími því að hámarki orðið fimm ár.  Með lántökunni hefur Landsvirkjun lokið við  endurfjármögnun samskonar láns sem er á gjalddaga í desember 2012.

Um lántökuna sáu Barclays Capital, Citigroup og SEB.  Aðrir bankar í láninu eru Arion Banki, JP Morgan, UBS, Landsbankinn og Íslandsbanki.

Fyrr í haust breytti matsfyrirtækið Standard & Poor’s horfum á lánshæfismati Landsvirkjunar úr neikvæðum í stöðugar. Landsvirkjun undirritaði einnig samning um verktakafjármögnun vegna Búðarhálsvirkjunar á kjörum sem fyrirtækið sagði hagstæð og gaf út nýja skuldabréfaflokka í erlendri mynt. 

Strax í sumar sagði fyrirtækið einnig fréttir af því að framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun gengju bara vel.