Miðvikudagur 7. desember 2011

Vefþjóðviljinn 341. tbl. 15. árg.

Hrunið er ekki góð afsökun fyrir skattahækkunum. En ef ríkið hefði reynt að bjarga bönkunum frá hruni hefðu menn eina mjög góða.
Hrunið er ekki góð afsökun fyrir skattahækkunum. En ef ríkið hefði reynt að bjarga bönkunum frá hruni hefðu menn eina mjög góða.

Í hvert skipti sem Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hækkar skatta eða bætir nýjum við réttlætir hann það með því að „hér hafi orðið hrun.“ Svo virðist sem ráðherrann telji það algilt svar við allri gagnrýni.

Jú vissulega fóru stærstu bankar þjóðarinnar sér að voða og erlent lánsfé á kostakjörum hætti að streyma til landsins í bili. En hvað átti ríkið að gera í því? Hvað vildi Steingrímur hafa gert til að koma í veg fyrir „hrunið“? Bjarga bönkunum á kostnað skattgreiðenda? Þá fyrst hefði nú verið komin góð afsökun til að hækka alla skatta.

Steingrímur bætir því svo jafnan við að hækkunin sé nú bara hófleg og muni því ekki skaða atvinnulífið. Hann er búinn að segja þetta ansi oft því hann hefur hækkað nær alla skatta sem fyrir voru, vakið aðra upp frá dauðum og lagt nýja á.

Ætli það hafi engin áhrif þegar allar þessar skattahækkanir eru lagðar saman?

Hvað ætli sé margt fólk á atvinnuleysisbótum sem væri það ekki ef Steingrímur hefði ekki hækkað skatt á launagreiðslur fyrirtækja (tryggingagjaldið), virðisaukaskatt, fjármagnstekjuskatt, skatt á arðgreiðslur, tekjuskatt fyrirtækja og skatta á eldsneyti? Þetta eru allt gjöld sem segja strax til sín í rekstri venjulegra fyrirtækja.