Þriðjudagur 6. desember 2011

Vefþjóðviljinn 340. tbl. 15. árg.

Tvö furðufélög sjá Samfylkingunni fyrir húsakosti og starfsfé: Annað er Sigfúsarsjóður og hitt er Alþýðuhús Reykjavíkur ehf sem lúrir á 188 milljónum króna á bankareikningi sínum. Að baki standa Fjölnir og Fjálar svo gagnsæir að þeir eru ósýnilegir.
Tvö furðufélög sjá Samfylkingunni fyrir húsakosti og starfsfé: Annað er Sigfúsarsjóður og hitt er Alþýðuhús Reykjavíkur ehf sem lúrir á 188 milljónum króna á bankareikningi sínum. Að baki standa Fjölnir og Fjálar svo gagnsæir að þeir eru ósýnilegir.

Á sunnudaginn sagði Vefþjóðviljinn frá Sigfúsarsjóði, að svo miklu leyti sem hægt er að segja frá því leynifélagi íslenskra sósíalista, því sjóðurinn skilar aldrei ársreikningi til ársreikningaskrár. Þó er vitað að við stofnun Samfylkingarinnar tók sjóðurinn þátt í því að hreinsa upp skuldir Alþýðubandalagsins, hann hefur skotið skjólshúsi yfir skrifstofu Samfylkingarinnar á Hallveigarstíg 1 undanfarin ár og styrkt Samfylkinguna með beinum fjárframlögum.

Meðeigandi Sigfúsarsjóðs að þeim hluta Hallveigarstígs 1 sem Samfylkingin hefur aðsetur sitt í er annað leynifélag Samfylkingarmanna að nafni Alþýðuhús Reykjavíkur ehf. Alþýðuhús Reykjavíkur ehf seldi húseign við Hverfisgötu 8-10 árið 2001 fyrir kr. 220 milljónir. Hluti þess fjár var svo nýttur til kaupa á húsnæði undir Samfylkinguna við Hallveigarstíg 1.

Ólíkt Sigfúsarsjóði skilar Alþýðuhús Reykjavíkur ehf ársreikningi. Í ársreikningi fyrir árið 2010 kemur fram að eignir félagsins eru  kr. 212.617.457, bókfært eigið fé í árslok er kr. 190.482.766 og er eiginfjárhlutfall félagsins 89,59%. Hluthafar í félaginu voru 19 í lok ársins 2010. Tveir hluthafar eiga meira en 10% hlutafjárins,  Fjölnir sjálfseignarfélag 40,6% og Fjálar sjálfseignarfélag 42,2%. Engar upplýsingar er að finna um Fjölni og Fjálar í fyrirtækjaskrá. Annað hvort hefur nöfnum þeirra verið breytt nýlega eða félögin eru óskráð. Að minnsta kosti er Vefþjóðviljinn ekki nægilega vel að sér í útrásarfléttum til að greiða úr flækjunni sem eignarhald Alþýðuhúsa Reykjavíkur ehf er.

Alþýðuhús Reykjavíkur ehf. liggja á 188 milljónum króna á bankareikningum auk þess að eiga fasteign þá sem hýsir Samfylkinguna. Þótt þetta virðist einfaldur rekstur reyndist rekstarkostnaður félagsins utan afskrifta á síðasta ári vera yfir 8 milljónir króna.

Rekstartekjur félagsins undafarin ár hafa verið sem hér segir: 2010: kr. 2.794.800, 2009: kr. 2.525.000 og 2008: kr. 1.844.000.

Ef menn gefa sér að allar rekstrartekjur félagsins séu leigutekjur frá Samfylkingunni má segja að leigan á síðasta ári hafi verið við neðri mörk þess sem vænta má fyrir fasteign á þessu svæði. Hins vegar var leigan árið 2008 væntanlega verulega undir markaðsverði á þeim tíma. Í lögum um fjármál stjórnmálaflokka segir:  „Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði sem og sölu á þjónustu, vöru eða eignum á yfirverði. Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi sem og fjárhæð þeirra.“

Skýrði Samfylkingin frá því í ársreikningum sínum fyrir árið 2008 að hún hefði fengið húsaleigu á niðursettu verði hjá Alþýðuhúsum Reykjavíkur ehf?

Nú væri gott ef bókhald Samfylkingarinnar væri opið eins og forystumenn hennar hafa svo oft lofað en aldrei efnt.