Vefþjóðviljinn 334. tbl. 15. árg.
Óttar M. Norðfjörð rithöfundur hefur gefið út ljósritið Íslenskir kapítalistar. Hann segir það til mótvægis við bók Hannesar H. Gissuarsonar um íslenska kommúnista.
Óttar virðist telja alræðisstjórnir kommúnista á 20. öld á einhvern hátt samanburðarhæfar við lánsfjárbóluna sem vestrænir seðlabankar blésu upp á fyrsta áratug 21. aldar og Óttar tengir ranglega við kapítalisma.
Eins og svo oft hefur komið fram á opinberum vettvangi er Óttar M. Norðfjörð afar hógvær maður. Hann kann ekki við að trana sér og sínum fram eða gera mikið úr sínum hlut. Hann getur ekki gert að því þótt hann sé eini maðurinn sem kemst í fréttir fyrir að ljósrita.
Þess vegna hefur hann alveg sleppt að segja frá því í nýja ritinu um síðari tíma sögu kapaítalismans þegar stóreygir félagar hans í skáldafélaginu Nýhil stóðu með opinn gogginn í Landsbankanum vorið 2006 og undirrituðu samning um kaup bankans á 1.200 bókum eftir þá Nýhil félaga. Viðar Þorsteinsson undirritaði samninginn fyrir hönd Nýhils. Viðar sagði í viðtali við Morgunblaðið 3. mars 2006 að Nýhil hefði leitað til bankans og verið afar vel tekið. Meðal bóka sem bankinn keypti í bílhlössum af Nýhil voru Gleði og glötun eftir Óttar, Rispa jeppa eftir Hauk Má Helgason og Blandarabrandarar eftir Eirík Örn Norðdahl.
Skömmu eftir undirritun samninga við Nýhil hóf Landsbankinn söfnun innlána á Icesave reikningana í Bretlandi. Bankinn gat ekki endurgreitt innlánin, sem frægt er. Óttar M. Norðfjörð beitti sér þá fyrir þeim málstað að íslenskur almenningur greiddi þessar skuldir bankans.
Fyrst er etið upp úr skjólu einkabanka og þegar hún er orðin tóm er reynt að klína ábyrgðinni á skattgreiðendur.