Þriðjudagur 29. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 333. tbl. 15. árg.

Þjóðfélagið verður æ furðulegra. Og flestir fjölmiðlar láta eins og þeir skilji ekki ýmis grundvallaratriði.

Eitt atriði er til dæmis það, að forsætisráðherra styður aðra ráðherra sína. Þeir eru skipaðir í ráðherrasæti samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Þeim verður veitt lausn ef forsætisráðherra leggur það til. Af þessu leiðir það augljósa, að forsætisráðherra styður alla þá ráðherra sem hann biðst ekki lausnar fyrir.

Þetta skilja flestir venjulegir menn, þótt fréttamenn leyfi Jóhönnu Sigurðardóttur að bulla í viðtölum eins og hún skilji þetta alls ekki. Núverandi forsætisráðherra virðist halda að hún geti talað í míkrófóna eins og hún styðji alls ekki eigin ráðherra, þegar raunveruleikinn er sá að hún biðst ekki lausnar fyrir þessa sömu ráðherra. Svo lengi sem hún biðst ekki lausnar fyrir ráðherrana þá styður hún þá og embættisverk þeirra.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur talað flestum stjórnmálamönnum meira um nauðsyn þess að endurskoða stjórnarskrána. Ætli ákafi hennar í að breyta stjórnarskránni standi í sambandi við skilningsleysi hennar á núverandi stjórnarskrá?