Fimmtudagur 1. desember 2011

Vefþjóðviljinn 335. tbl. 15. árg.

Hvað með einkaeignarrétt á klæðum? Verður hann líka skotmark liðsmanna Chengríms?
Hvað með einkaeignarrétt á klæðum? Verður hann líka skotmark liðsmanna Chengríms?

Sumir halda að litlu skipti hverjir séu í stjórn. Þessi stjórnmálaflokkar séu allir eins. Aðrir halda svo að mál séu hvorki til hægri né vinstri heldur séu þau bara tæknileg úrlausnarefni.

Allt er þetta tóm vitleysa. Það skiptir verulegu máli hvort þjóðfélaginu er stefnt til hægri eða vinstri, til athafnafrelsis og eignarréttar einstaklinganna eða til opinbers skipulags og ríkiseignar.

Stjórn vinstrigrænna í Reykjavík var að álykta. Þar segir:

Stjórn Vinstri-grænna í Reykjavík lýsir yfir létti og ánægju með þá ákvörðun Ögmundar Jónassonar, að synja Huang Nubo leyfis til uppkaupa á íslensku landi. Megi þetta verða vísir þess sem koma skal, að eignarhald á jarðnæði verði úr höndum auðmanna, hverrar þjóðar sem þeir eru, og að einkaeignarhald á jarðnæði heyri almennt sögunni til.

Síðara atriðið í ályktun stjórnar vinstrigrænna í Reykjavík er óhugnanlegt en sýnir hvert íslensk þjóðmálaumræða er komin. Vinstrigrænir í Reykjavík vilja stefna að því að „einkaeignarhald á jarðnæði heyri almennt sögunni til“.

Þeir vilja með öðrum orðum að allar landareignir verði lagðar undir ríkið. Bújarðir, sumar setnar af sömu ætt í margar aldir, þar sem hver bóndinn hefur tekið við af öðrum og ræktað upp ættarjörðina, skulu verða ríkiseign. Lönd sem fólk og félög hafa safnað sér fyrir og keypt, hafið þar skógrækt, plantað jurtum, búið sér aðstöðu, þetta líkar ekki stjórn vinstrigrænna í Reykjavík.

Skýringin er einfaldlega sú að vinstrimenn eru á móti einkaeignarrétti. Ef þeim tækist einhvern tíma að ná fram því baráttumáli sínu að jarðir geti ekki verið í einkaeign, hvers vegna ættu þeir að nema staðar þar? Af hverju ættu slíkir menn að fella sig við að íbúðarhúsnæði sé í einkaeign? Er ekki miklu betra að ríkið eigi þetta og úthluti mönnum svo bara búseturétti? Eða bifreiðarnar, hvaða réttlæti er í því að sumir aki um á eigin bíl og spúi mengun yfir heiðarlegt alþýðufólk sem bíður þolinmótt eftir opinberum strætisvagni?

Og þetta lið situr nú í ríkisstjórn.

Þeir sem halda að ekki skipti máli að berjast gegn vinstrimennskunni, þeir virðast hafa öll skilningarvit harðlokuð.