Helgarsprokið 27. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 331. tbl. 15. árg.

Það verður nóg að lesa á aðventunni og yfir jólahátíðina fyrir áhugamenn um þjóðmál. Nokkrar nýjar og áhugaverðar bækur hafa bæst við í bóksölu Andríkis undanfarna daga. Einfalt og fljótlegt er að panta bækur í bóksölunni og heimsending innanlands er innifalin í verði bókanna.

Meðal hinna nýju bóka er bók Sigurðar Más Jónssonar blaðamanns um Icesave málið, Icesave samningarnir – afleikur aldarinnar?

Í bókinni er sagt frá málinu frá upphafi og fram yfir þann enda sem það fékk með seinni þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl 2011.

Gerð hinna upphaflegu samninga, sem stundum eru kenndir við Svavar Gestsson, verður sjálfsagt ráðgáta um ókomin ár. Því verður vart trúað að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafi ekki haft fleira í huga en hagsmuni Íslendinga þegar þau gera tilraun til að koma ríkisábyrgð á þeim samningum í gegnum þingið. Það er ótrúlegt að ekki hafi hangið fleira á spýtunni. En flest af því sem þar kemur til greina er svo andstyggilegt að það er ekki hægt að setja á prent og jafnvel ekki netið.

Hér er hluti af lýsingu Sigurðar Más á gerð upphaflegu samninganna:

Þegar kom að undirritun samningsins síðdegis á föstudeginum datt andlitið af íslensku embættismönnunum. Sumir þeirra voru enn að átta sig á hlutunum en enginn upplifði þetta sem ánægjulega stund. Eigi að síður var undirritunin gerð að notalegri athöfn að diplómatískum hætti. Þegar samningurinn hafði verið undirritaður bað aðalsamningamaður Íslendinga, Svavar Gestsson, um orðið og mælti nokkur vinsamleg orð. Þakkaði hann fyrir sig og afhenti síðan hinum erlendu samningamönnum litlar gjafir. „Það var eins og þetta væru einhverjir saklausir túristar en ekki harðsvíraðir samningamenn sem höfðu ekki skirrst við að beita öllum meðölum við samningagerðina. Og eftir sátum við með samning sem við kviðum fyrir því að rýna ofan í,“ sagði einn viðstaddra eftir á. Embættismennirnir voru fullir efasemda og sumum fannst eins og þeir hefðu gengið frá skelfilegum samningi, sem jafnvel jaðraði við landráð. Þeir töldu sig hins vegar hafa lítið svigrúm til að hafa áhrif á málið, hvað þá að mótmæla samningnum. Þeir óttuðust um feril sinn og hugsanlega hafa þeir haft í huga erfitt atvinnuástand utan veggja stjórnsýslunnar. Staðreyndin var sú að öðrum nefndarmönnum fannst nóg um hve kumpánlegir þeir Indriði H. Þorláksson og Svavar Gestsson voru orðnir við útlendingana í lok viðræðnanna. Sérstaklega kom þeim undarlega fyrir sjónir sá siður Indriða að leitast eftir því að fara út að borða á kvöldin með viðsemjendum sínum. Erlendu samninganefndarmennirnir voru ánægðir með samninginn og göntuðust með það sín í milli að þeir væru að flýta sér. Þeir ættu pantað borð á Hótel Holti.

Er nema von að Sigurður Már vitni í upphafi bókar í Otto von Bismarck: Lagasetning er eins og pylsugerð, best er að sjá ekki hvernig hún fer fram.