Laugardagur 26. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 330. tbl. 15. árg.

Þeir eru ekki ánægðir á leikskólunum núna. Borgaryfirvöld voru að ákveða að borga þeim ekki fyrir svokölluð „neysluhlé“, en Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs segir það mjög eðlilegt og hafi ekki átt að koma á óvart.

En viðbrögðin eru ekki af rólegri endanum: „Það er ekki ofsögum sagt að við leikskólakennarar i Reykjavík séum sturlaðir af reiði“, hefur Ríkisútvarpið eftir formanni þeirra, sem notaði einnig sama orðalag í vefpistli fyrr um daginn.

Nú er ekki gott að segja hvað neysluhlé eru, eða hversu mikið og hvers vegna var greitt fyrir þau. En hvernig geta menn orðið „sturlaðir af reiði“ við það að hætt sé slíkum greiðslum? Eru þeir kannski líka að gæta barna á sama tíma og þeir eru „sturlaðir af reiði“, vegna neysluhlésgreiðslnanna? Þeir sem „sturlast“ af reiði vegna svona máls, er víst að þeir séu á réttri hillu við barnagæslu? Það er kannski bara best að þeir séu í hagsmunagæslu.

Og annað mál sem tengist sveitarfélögum landsins birtist í fréttum í gær. Ein peningabrennslustöð hins opinbera, fyrirtæki að nafni Strætó bs, var að bjóða út kaup á tveimur vögnum sem ganga eiga milli Akraness og Mosfellsbæjar. Í útboðsskilmálum mun gert ráð fyrir að í vögnunum verði einnig pláss fyrir farþega sem kjósa að standa í vagninum og það eru einhverjir, sem ætluðu að taka þátt í útboðinu, óánægðir með. En þessi litla frétt vekur upp aðra spurningu: Sveitarfélögin í landinu eru flest í miklum fjárhagsvandræðum. Sveitarstjórnarmenn tala eins og ekki verði gengið lengra í niðurskurði en samt ætla þeir enn að halda úti strætisvagnasamgöngum upp á Akranes.