Vefþjóðviljinn 329. tbl. 15. árg.
Það var ekkert vit í að leyfa íslensku bönkunum að verða á við tífalda landsframleiðslu.
Svona hljómar hún, helsta kenningin um ástæður þess að bankarnir og margir svokallaðir fagfjárfestar fóru sér að voða haustið 2008.
Veitti einhver bönkunum sérstakt „leyfi til að stækka“? Hvers vegna í ósköpunum hefðu bankarnir átt að sækja um leyfi til að auka við starfsemi sína, „fara í útrás“ eða hvað það var sem bankamenn töldu tæra snilld hverju sinni? Er það ekki vegna þess að þeir sem kyrja þennan söng gefa sér alltaf þá forsendu að bankar starfi á ábyrgð ríkisins?
Er raunveruleg eða ætluð ábyrgð ríkisins þá ekki fremur vandamálið en stærð bankanna? Og ef bankarnir starfa á ábyrgð skattgreiðenda, er þá nema von að þeir stækki eins mikið og þeir geta? Hluthafar bankanna njóta ávinningsins ef vel gengur en ábyrgð þeirra takmarkast við eiginfjárframlag þeirra. Lánadrottnar þeirra, sér í lagi innstæðueigendur, hafa engan hag af því að veita bönkunum aðhald þar sem ríkið keppist við að sannfæra þá um að innstæður séu tryggðar.
Vegna þess hvernig afskiptum og ábyrgð ríkisins á bankakerfinu var háttað er Vefþjóðviljanum næst að halda að það hafi verið blessun að íslensku bankarnir voru tíföld landsframleiðsla en ekki bara tvöföld. Ef þeir hefðu verið svona tvöföld landsframleiðsla hefði ríkinu sennilega tekist að skrapa saman erlendum lánum til að bjarga þeim. Erlendum eignum lífeyrissjóðanna hefði sennilega einnig verið kastað á bálið. Ríkissjóður hefði sogast inn í öll rekstarævintýr bankanna.
Þeir sem hafa svo ákveðna skoðun á því að efnahagsreikningar bankanna megi ekki vera tíföld landsframleiðsla verða líka í framhaldinu að upplýsa hvar mörkin liggja. Má bankakerfið verða þreföld landsframleiðsla? Fimmföld? Og er núverandi bankakerfi hæfilega stórt? Ef svo er, hvers vegna þarf það þá bæði á altækri innstæðutryggingu að halda og gjaldeyrishöftum?
Eða miðast mörkin hverju sinni við að ríkið getið látið skattgreiðendur bjarga bönkunum, eigendum þeirra og lánveitendum?
Það var í raun mildi að hinir umdeildu eigendur og stjórnendur stóru bankanna gerðu þá svo snemma og rækilega gjaldþrota að þeim varð ekki bjargað eins og mörgum öðrum evrópskum bönkum á sama tíma; Dexia, SpKef, Commerzbank og RBS.
Um leið má þakka fyrir að hér var svo lítill seðlabanki í samanburði við bankana að bjargráð hans gátu ekki afstýrt því að bankarnir færu þangað sem illa rekin fyrirtæki eiga að fara, í þrot. Þannig voru þeir sem lánuðu bönkunum fé sem töpuðu en ekki þeir sem fyrir tilviljun höfðu sama ríkisfang og bankarnir.
Hvað var eiginlega svona ljótt við að bankarnir væru tíu sinnum stærri en Ísland?