Vefþjóðviljinn 328. tbl. 15. árg.
Stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa lengi haldið því fram að evran sé helsta mynt Íslendinga í viðskiptum við útlönd. Því til staðfestingar er bent á svonefnda viðskiptavog Seðlabanka Íslands sem sýnir evrusvæðið með um 40% hlut í inn- og útflutningi. Evran hefur þar með algera yfirburði sem utanríkisviðskiptamynt Íslendinga. Efri kakan hér til hliðar sýnir þessa stöðu.
Vefþjóðviljinn fékk hins vegar um það ábendingu á dögunum að ekki væri allt sem sýndist í þessum efnum. Nokkrar forsendur í viðskiptavoginni eru umdeilanlegar.
Útflutt ál er nú skráð á evrusvæðið en selt í US$.
Innflutt súrál er fært á útflutningsland en uppgjörsmynt er US$.
Eldsneyti er skráð á útflutningsland en US$ er uppgjörsmynt.
Sjávarafurðir sem skráðar eru til Austur-Evrópu og Asíu (utan Japan) eru gerðar upp í US$.
Þegar þessum vafasömu forsendum seðlabankans er snúið Bandaríkjadal í hag breytist viðskiptavogin mjög hratt því þetta eru allt mikilvægir þættir í utanríkisviðskiptum Íslendinga.
Þá gæti endurmetin viðskiptavog litið út líkt og neðri kakan sýnir. Bandaríkjadalur er á pari við evruna í utanríkisviðskiptum Íslendinga.
Ef menn tækju útflutningstekjur sérstaklega fyrir með sama hætti myndi vægi Bandaríkjadals í útflutningi Íslendinga vera 37% en evru 27%.