Vefþjóðviljinn 316. tbl. 15. árg.
Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi birtist móð og másandi í sjónvarpsfréttum í fyrrakvöld. Ástæðan var sú að skemmtistaður í bænum hafði auglýst „Dirty Night“. Í auglýsingunni var léttklætt fólk sem hafði eggjandi tilburði í frammi, dillaði sér og svoleiðis. Guðrún skoraði á Ögmund Jónasson innanríkisráðherra að grípa til ráðstafana gegn þessu.
Guðrún vísaði til þess að nítján ára dóttir hennar hefði séð þennan ófögnuð á Facebook og hrópað í angist: mamma ætlarðu að láta þetta viðgangast?
Hér sannast enn að um leið og reynt er að sefa forsjárhyggjuliðið með því að gefa eftir, til að mynda rétt fólks til að sýna öðrum líkama sinn gegn greiðslu, gengur það á lagið og heimtar meira. Nú dugar því ekki að nekt sé bönnuð heldur vill það einnig banna fólki að dansa léttklætt.
Þær mæðgur í Kópavoginum hafa áður verið í fréttum. Dóttirin fór um á bíl í eigu bæjarins, sem móðir hennar hafði til umráða sem bæjarstjóri. Á meðan nýtti bæjarstjórinn sér bíla úr þjónustmiðstöð bæjarins. Til að leysa þennan vanda stakk bæjarstjórinn upp á alveg sérlega siðlegri lausn í viðtali við Vísi 10. febrúar síðastliðinn:
Ég get fullyrt að ég hef ekki lagt í vana minn að misnota eigur Kópavogsbæjar. Ég mun gæta þess að ég mun aldrei aftur kvitta fyrir einum eða neinum bíl úr þjónustuverinu þegar ég fer á fundi með öðrum starfsmönnum.
Bæjarstjórinn er gagnrýndur fyrir að vera á tveimur bílum í eigu bæjarins í einu og stingur þá upp á að hann hætti að kvitta fyrir notkunina á öðrum þeirra heldur láti öðrum starfsmönnum bæjarins það eftir.
Og bæjarstjórnin í Kópavogi hafði síður en svo lokið sér af vegna „Dirty Night“. Erla Karlsdóttir formaður „jafnréttis- og mannréttindaráðs“ Kópavogs var á líka á skjánum sömu erinda og bæjarstjórinn. Hún hafði áhyggjur af því að fólkið á „Dirty Night“ káfaði hvert á öðru.
Það er meira að segja leyft að káfa á þeim eins og þú káfar á bangsa eða einhverju slíku.
Já ljótt er það, bangsaknús og allt. Hvar er innanríkisráðherrann?
En bæjarstjórinn og formaður ráðsins hafa sparað aðstandendum „Dirty Night“ milljónir króna í auglýsingakostnað. Það var til nokkurs unnið.