Vefþjóðviljinn 306. tbl. 15. árg.
Hjálmar Sveinsson varaborgarfulltrúi skrifar mikla umvöndunargrein í Fréttablaðið í dag. Þar kvartar hann undan óvæginni umræðu um stjórnmálamenn. En segir svo í lok greinarinnar:
Við höfum ekki góða reynslu af pólitískri lömunarveiki, þröngum flokkshagsmunum, hreppapólitík, málþófi, útúrsnúningum og lýðskrumi. Við þurfum ekki minni stjórnmál. Við þurfum meiri og betri stjórnmál.
Hjálmari þykir umræðan um stjórnmálin óvægin en segir stjórnmálin engu að síður mörkuð af ýmsu miður kræsilegu.
Eins og Vefþjóðviljinn rakti í gær stendur Hjálmar þessa dagana að eftirgjöf á afnotarétti borgarinnar á lóðarskika í Vesturbæ til eins af nefndarformönnum Samfylkingar og Besta flokks.
Þegar ljóst var að Hjálmar náði ekki kjöri sem borgarfulltrúi Samfylkingar vorið 2010 kom hann í sjónvarpið og lét að því liggja að hann myndi ekki taka sæti sem fyrsti varaborgarfulltrúi fyrr en hann sæi að það væri almennilega borgað.
Hjálmar tók sætið og Samfylkingin og Besti flokkurinn létu það verða eitt sitt fyrsta verk í nýjum meirihluta að hækka launin við fyrsta varaborgarfulltrúa. Og hækkuðu svo útsvarið á borgarbúa.
Einar Örn Benediktsson borgarfulltrúi varði þessa launahækkun af fádæma fimi í viðtali við Rás 2 21. september 2010. Eftir það sátu gagnrýnendur launahækkunar til Hjálmars Sveinssonar með rjómabollu í andlitinu og væntanlega sannfærðir um að meiri og betri stjórnmál væru í vændum.