Þriðjudagur 1. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 305. tbl. 15. árg.

Fulltrúar Samfylkingar í Skipulagsráði, Hjálmar Sveinsson og Kristín Soffía Jónsdóttir, vilja gefa samherja sínum lóðarréttindi í Vesturbæ.
Fulltrúar Samfylkingar í Skipulagsráði, Hjálmar Sveinsson og Kristín Soffía Jónsdóttir, vilja gefa samherja sínum lóðarréttindi í Vesturbæ.

Fyrir rúmum fimm árum lagði Vefþjóðviljinn út af orðum Haraldar Ólafssonar veðurfræðings um þéttingaræði sem runnið hafði á borgarstjórn Reykjavíkur á mótum Holtsgötu, Bræðraborgarstígs og Hávallagötu. Þar voru byggð ný fjölbýlishús gegn vilja nágranna meðal annars með þeim rökstuðningi Margrétar Þormar hjá skipulagssviði borgarinnar að næg bílastæði væru til staðar á lóð Blómsturvalla við Bræðraborgarstíg 31. Borgin hefur afnot af hluta lóðarinnar fyrir bílastæði samkvæmt samningi við lóðareiganda frá 1951. Lóðareigandi hefur annað svæði til afnota á móti.

Til að sýna íbúum frekari samstöðu í þessari baráttu flutti Vefþjóðviljinn aðsetur sitt á síðasta ári í nágrenni við þennan ágæta blett. Það er því rétt að taka fram áður en lengra er haldið að þótt fleiri mæti á hjóli á aðalfundi Andríkis en landsfundi VG nota sumir félagsmanna bíl og hafa því hagsmuna að gæta.

Um tíma virtist sem borgaryfirvöld hefðu hlustað á íbúa og tekið sönsum varðandi þessi mál. Fallið var frá hugmyndum um meiri þéttingu og fækkun bílastæða.

Meðal annars sagði Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi um bílastæðin við Blómsturvelli í skriflegri yfirlýsingu: „…því þótt um einkalóð sé að ræða hefur borgin afnot af stæðunum skv. sérstökum samningi sem mér sýnist að ekki verði breytt nema í samkomulagi beggja.“

Nú er borgin hins vegar að gera svonefnt deiliskipulag fyrir þetta svæði. Samkvæmt því verða almennu bílastæðin 8 á lóð Blómsturvalla felld niður, þrátt fyrir margendurtekin mótmæli íbúa á svæðinu. Margrét Þormar skrifar 3. október síðastliðinn umsögn um málið fyrir skipulagssvið borgarinnar þar sem hún segir: „Talið er að það sé áhrifaríkari lausn á bílastæðavandræðum að borgarbúar nýti sér betur almenningssamgöngur auk þess sem þeir gangi meira og hjóli oftar.“

Borgin gerir sér með öðrum orðum glögga grein fyrir því að þarna eru mikil bílastæðavandræði, meðal annars vegna nýlegrar þéttingar byggðar, en ætlar engu að síður að fella niður almenn 8 bílastæði við Bræðraborgarstíg 31 sem hafa verið þar í yfir 60 ár. Þetta eru sömu bifreiðastæði og borgaryfirvöld notuðu sem rökstuðning fyrir því óhætt væri að þétta byggðina.

Ekkert knýr borgina til að fella þessi stæði niður og falla frá þeim samningsbundna afnotarétti sem hún hefur. Nýr eigandi Blómsturvalla er hins vegar nefndarformaður hjá meirihluta Besta flokks og Samfylkingar.

Það virðist duga Hjálmari Sveinssyni og Kristínu Soffíu Jónsdóttur sem sitja fyrir Samfylkinguna í skipulagsráði til að ganga ekki aðeins gegn loforðum embættismanna borgarinnar og Dags B. Eggertssonar heldur nær einróma áskorunum íbúa á svæðinu um árabil.