Fimmtudagur 3. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 307. tbl. 15. árg.

Buiter talar í hrunhöllinni.
Buiter talar í hrunhöllinni.

Á dögunum héldu ríkisstjórnin og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn ráðstefnu um lærdóminn af bankahruninu. Ráðstefnan var að sjálfsögðu haldin í helsta minnismerki Íslendinga um óhóf og ábyrgðarleysi, í sjálfri hrunhöllinni. Meðal fyrirlesara var Willem Buiter núverandi aðalhagfræðingur Citigroup en hann skrifaði að sögn ýmis varnaðarorð um íslenskt efnahagslíf í skýrslu snemma árs 2008. Á ráðstefnunni sagði Buiter meðal annars í þýðingu Ríkissjónvarpsins:

En gleymum því ekki að í 15 ár fyrir hrun ríkti múgbrjálæði á Íslandi. Bankarnir gegndu þar stóru hlutverki. Þeir stýrðu dansinum, Hér óð uppi blekking, spilling, lán til tengdra aðila og önnur siðlaus og glæpsamleg hegðun. En hér létu líka nær allir skynsemina lönd og leið og slíka múgheimsku hef ég hvergi séð í þróuðum ríkjum. Mér finnst alltaf jafnótrúlegt að 300 þúsund manna þjóð hafi talið sig standa undir þremur alþjóðlegum bönkum þar sem hlutfall eigna bankanna á móti landsframleiðslu var um 1000%. Það er með ólíkindum. Við verðum að átta okkur á því að slík útbreiðsla hópgeggjunar gerir þjóðir berskjaldaðar. Hæfileikafólk á íslandi er óhjákvæmilega álíka margt og í miðlungsstórri borg eins og Coventry á Englandi. Þið getið ekki gert ráð fyrir að fá góða menn í fjármálaráðuneytið, Seðlabankann, stjórn fjármálaeftirlitsins, löggjafar- og dómsvaldið, utanríkisráðuneytið, varnarmálayfirvöld og viðskiptastofnanir ef aðeins eru ráðnir Íslendingar.

Það eru ekki mikil líkindi með Íslandi árið 1993 og 2008, sem eru upphaf og endir þess sem Buiter nefnir geggjunartímabil Íslendinga, þótt það gæti verið gaman að heyra álit Jóns Baldvins Hannibalssonar á því hvers vegna Íslendingar hafi verið geggjaðir frá því þeir skrifuðu undir EES samninginn. Jafnvel milli áranna 2003 og 2007 voru hlutir um margt ólíkir. Eins gaman það er nú að Íslendingar séu mestir og fremstir á einhverju sviði þá héldu langflestir landsmenn sig á jörðinni á þessu tímabili. Þess vegna stendur meirihluti Íslendinga sæmilega af sér 50% fall krónunnar, 50% verðrýrnun húsnæðis og 30% hækkun verðtryggðra lána. Því fer fjarri að fólk sem kemst í gegnum slíkar hremmingar hafi fram að því tekið þátt í einhverri múgheimsku og hópgeggjun. Ætli Buiter sjálfur myndi þola 50% verðlækkun eigna sinna og 30% hækkun lána á nánast einni nóttu?

Svo er það sú kenning bankamannsins að það sé ótrúlegt að „300 þúsund manna þjóð hafi talið sig standa undir þremur alþjóðlegum bönkum þar sem hlutfall eigna bankanna á móti landsframleiðslu var um 1000%.“ Það er rangt hjá Buiter að þjóðin hafi talið sig vera með þessa banka á herðunum. Það kom berlega í ljós í atkvæðagreiðslum um Icesave. Það er ef til vill erfitt fyrir bankamann frá Bretlandi, þar sem ríkið bjargaði nýverið fjölda þarlendra banka frá þroti, að skilja það til hlítar að bankar séu einkafyrirtæki sem eigi að fara í þrot eins og önnur fyrirtæki. En þannig á það auðvitað að vera. Það er ekkert að því að stórir, alþjóðlegir bankir hafi höfuðstöðvar sínar á Íslandi á meðan það er á hreinu að ríkið beri hvorki ábyrgð á bönkunum sjálfum né innstæðueigendum.

Að lokum lagði Buiter til að fengnir yrðu erlendir starfsmenn í ýmsar stofnanir samfélagsins eins og seðlabankann því Íslendingar væru svo fáir. Væri ekki nær að leggja seðlabankann niður? Hver eru rökin fyrir því að íslenska ríkið reki seðlabanka? Vefþjóðviljinn hefur oft kallað eftir þeim rökum undanfarin 15 ár en lítil svör fengið. Rifu Íslendingar sig ekki upp úr örbirgð á fyrsta fjórðungi síðustu aldar án þess að hér væri ríkisseðlabanki með einkarétt á útgáfu gjaldmiðils? En það er auðvitað ein helsta meinloka bankamannsins að einkabankar eigi að njóta stuðnings seðlabanka ríkisins.

Kenning Buiters um að ríki þurfi að vera af ákveðinni stærð til að geta rekið lykilstofnanir er ekki heldur mjög sannfærandi þegar horft er á tugmilljónaríki innan Evrópusambandsins á barmi gjaldþrots á meðan smáríki eins og Sviss virðast bara spjara sig ágætlega.