Vefþjóðviljinn 302. tbl. 15. árg.
Frá 1969 hefur Gallup kannað afstöðu Bandaríkjamanna til þess að leyfa almenna notkun maríjúana. Í upphafi voru aðeins 12% því fylgjandi og lengstum var mikill meirihluti andvígur því. Nú hefur það hins vegar gerst í fyrsta sinn á þessum fjörtíu árum að meirihlutinn eða 50% er því fylgjandi en 46% andvíg.
Mesta andstaðan við að leyfa fíkniefnið er meðal íhaldsmanna og repúblíkana. Þeir tala þó manna mest um að fólk eigi að hafa tækifæri til að leita hamingjunnar á þann hátt sem það kýs. Hamingjuleitin virðist takmarkast við vinnu í sómakærum fyrirtækjum. En þar taka vinstri mennirnir líka við með skattana sína og reglurnar.
Þarna er því ákveðin verkaskipting í stjórnmálunum sem vert er að gefa gaum. Íhaldsmennirnir sjá um að þú hagir þér vel í frítímanum og vinstri mennirnir að þú gerir allt eftir bókinni í vinnunni.
Það er hvergi friður maður.