Föstudagur 28. október 2011

Vefþjóðviljinn 301. tbl. 15. árg.

Sóley Tómasdóttir: Mér finnst sérstakt að ekkert var fjallað um kynjaða hagstjórn. Ráðinn hefur verið sérfræðingur og það á að innleiða hana."
Sóley Tómasdóttir: Mér finnst sérstakt að ekkert var fjallað um kynjaða hagstjórn. Ráðinn hefur verið sérfræðingur og það á að innleiða hana.”

Í vikunni var haldin mikil ráðstefna um efnahagsmál. Komu til landsins fjölmargir heimsfrægir sérfræðingar, þar á meðal að minnsta kosti tveir Nóbelsverðlaunahafar í hagfræði, til að segja álit sitt á stöðu Íslands og vænlegum möguleikum. Flestum mun hafa þótt markverðast hvað hinir frægu gestir höfðu að segja, en eindregnar viðvaranir úr þeirra hópi við inngöngu í Evrópusambandið voru til dæmis áhrifamiklar.

En aðrir telja ýmislegt annað vera mikilvægara en hvað fyrirlesaranir vita eða kunna að hafa afrekað. Þeir verða að vera af réttu kyni. Kynjahlutföll, kynjahlutföll, kynjahlutföll. Sóley Tómasdóttir, eini borgarfulltrúi vinstrigrænna, er til dæmis hörð á því að það hafi sárlega vantað konur í hóp fyrirlesara. Afleiðingin hafi meðal annars orðið sú, að á ráðstefnunni hafi ekkert verið fjallað um „kynjaða hagstjórn“, þrátt fyrir að ríkisstjórnin sé búin að ráða „sérfræðing“ til þess að „innleiða hana“. Sóley segir að bent hafi verið á þennan galla á ráðstefnunni, en samt hafi ekki verið bætt úr honum.

Það er auðvitað með hreinum ólíkindum að menn haldi alþjóðlega ráðstefnu um efnahagsmál landsins og þar sé bara ekkert fjallað um kynjaða hagstjórn, sem þegar er búið að ráða sérstakan sérfræðing til að innleiða. Hvers konar furðufuglar eru það eiginlega sem koma hingað og halda fyrirlestra og spila sig stóra, en minnast svo bara ekkert á kynjaða hagstjórn? Og það er búið að ráða sérfræðing í fjármálaráðuneytið til að innleiða hana. Vita mennirnir ekki að femínstafélagið er búið að álykta margsinnis um kynjaða hagstjórn? Er sérfræðingurinn ekki fyrrverandi „ráðskona femínstafélagsins“?