Helgarsprokið 30. október 2011

Vefþjóðviljinn 303. tbl. 15. árg.

Frédéric Bastiat
Frédéric Bastiat

Franski rithöfundurinn Frédéric Bastiat orðaði svo fyrir góðri hálfri annarri öld að ríkið væri goðsögnin mikla um að allir gætu lifað á kostnað allra annarra. Evrópusambandið gerði fyrir helgina rétt eina tilraunina til að ræsa eilífðarvél byggða á þessari sögn.

Björgunarsjóðurinn svonefndi var stækkaður eina ferðina en og þótt sjálfur Rómarsáttamálinn virðist leggja bann við að ríki sambandsins taki ábyrgð á skuldum hvers annars verður ekki betur séð en einmitt það sé gert sem aldrei fyrr. Allir eiga að bjarga öllum. Íslendingar munu hins vegar ekki fá undanþágu til að veiða þrjátíu af 150 þúsund hrefnum við landið.

Það er auðvitað ævintýralegt að horfa upp á að evrópskir skattgreiðendur séu dregnir sífellt dýpra ofan í þetta skuldafen í stað þess að þeir sem lánað hafa ESB-ríkjunum við Miðjarðarhaf langt umfram greiðslugetu þeirra séu látnir taka afleiðingum gjörða sinna.

Í leiðara The Wall Street Journal í gær er sagt að þessir tilburðir geti vissulega dregið úr líkum á því að ríki verði gjaldþrota en ef til þess komi engu að síður verði þrotið stærra og dýrara en ella.

En hvernig í veröldinni stendur á því að lánveitendur, sem eru að stærstum hluta fjármálastofnanir í einkaeign, geta tekið lönd og jafnvel álfu með sér í fallinu? Er það kannski til marks um afleiðingar óhefts kapítalsima?

Vefþjóðviljinn óskar sem fyrr eftir að fá ábendingu um atvinnugrein sem búið hafi við meira eftirlit, þéttara net laga og reglugerða og meiri óbeina ríkisábyrgð en fjármálastarfsemi á Vesturlöndum um og eftir aldamótin síðustu. Nefna má dæmi frá Sovétríkjunum og Kína ef ekki vill betur til.

Svo langt gekk ábyrgð skattgreiðenda á þessari starfsemi að jafnvel þegar íslenska ríkið gat ekki – þótt það hefði viljað – bætt allar innstæður á reikningum Landsbankans erlendis stukku erlend ríki tafarlaust til og bættu innstæðueigendum sitt að viðbættum hinum háu vöxtum sem þeir létu glepjast af og bankinn stóð ekki undir.

Undirstaða fjármálakerfisins eru seðlabankar ríkisins. Samband seðlabanka og banka er, eins og Murray Rothbard orðaði það árið 1969, eins og þægilegur einokunarklúbbur sem vinnur að því að stækka efnahagsreikning bankanna.

En ef nú hagsveifluna stafar frá bönkunum, – ja, eru bankarnir ekki líka hluti af frjálsa markaðnum? Og getum við ekki samt sagt að frjálsi markaðurinn sé skúrkurinn, þótt það sé ekki nema bankageirinn af honum? – Svarið er nei. Í einn stað vegna þess að bankarnir gætu aldrei ráðist í útlánaþenslu samstíga, ef ekki væri fyrir íhlutun og stuðning yfirvalda. Því ef bankarnir væru fyllilega í samkeppnisumhverfi, myndi útlánaþensla eins þeirra valda því að hann safnaði skuldum í hinum bönkunum, keppinautum sínum. Og þeir myndu brátt innheimta reiðufé af honum. Í stuttu máli munu keppinautar bankans leysa út skuldabréf fyrir gull, eða reiðufé, á sama hátt og útlendingar myndu gera, – nema hvað ferlið væri sýnu hraðvirkara svo það jafnaði út þenslu jafnóðum, áður hún þendi sig svo nokkru næmi. Bankar geta ekki þanið sig samstíga með góðu móti nema seðlabanki sé til staðar, – sem eiginlega hlýtur að lúta stjórn yfirvalda, hafa einokun á viðskipti við yfirvöld, og lykilstöðu gagnvart öllu bankakerfinu sem er tilskipuð af yfirvöldum. Það var ekki fyrr en seðlabankar fóru að tíðkast, að bankar fóru að geta þanið útlán í langan tíma og hin kunnuglega hagsveifla hóf göngu sína í heimi nútímans.

Eins og Rothbard segir sprettur hagsveiflan ekki af neinum leyndardómsfullum misbrestum frjálsa markaðarins. Nei, þvert á móti segir hann: hún sprettur einmitt af skipulegum afskiptum stjórnvalda af gangi markaðarins. Íhlutun yfirvalda leiðir til aukinna bankalána og þenslu, – og, þegar henni lýkur – fylgir leiðrétting kreppunnar í kjölfarið.