Það hlýtur að vera áhugavert að vera slóvakískur eldri borgari um þessar mundir. Ellilífeyrisþegar í Slóvakíu fá um 230 evrur á mánuði í ellistyrk. Nú er þeim og öðrum Slóvökum ætlað að leggja fram aukið fé í sameiginlegan björgunarsjóð ESB ríkja. Fyrst á að bjarga gríska ríkinu en þar er ellilífeyrir yfir 800 evrur á mánuði. Þjóðarframleiðsla á mann er einnig nær tvöfalt hærri í Grikklandi en Slóvakíu.
Ríkissjóður Grikklands má ekki verða formlega afvelta því þá missa fjárfestar einnig trú á að öðrum útgefendum ríkispappíra á strandlengju Miðjarðarhafsins verði bjargað. Gjaldfall Grikklands hefði því hörmulegar afleiðingar fyrir bækur fjármálastofnana vítt og breitt um um álfuna.
Slóvakískur eldri borgari hlýtur að taka því með jafnaðargeði að örlítið sé klipið af 230 evrunum hans til að fegra megi bækur þýskra og franskra banka.