Miðvikudagur 12. október 2011

Vefþjóðviljinn 285. tbl. 15. árg.

Þingið í Slóvakíu hafnaði í gær frumvarpi um stofnun svokallaðs björgunarsjóðs evruríkjanna. Það þýðir að þingið í Slóvakíu þarf að greiða aftur atkvæði um tillöguna þar til hún hefur verið samþykkt. Ekki nokkrum manni dettur í hug að einhver samkoma sem kallar sig „þingið í Slóvakíu“ hafi eitthvað raunverulegt um það að segja ef ráðamenn í Berlín og París ákveða að Slóvakar skuli taka þátt í að bjarga þýskum og frönskum lánveitendum Grikkja.

Slóvakar gengu í Evrópusambandið og tóku upp evru. Þannig fengu þeir „sæti við borðið“, en á Íslandi eru einmitt til menn sem segja að Ísland þurfi að fá slíkt sæti.

„Sæti við borðið“ þýðir að smáríki sitja eins og Þjóðverjar og Frakkar segja þeim. Þeir sem sitja við borðið eiga að hlýða þeim við borðsendann. Ef þeim líkar ekki það sem borið er á borð, þá er einfaldlega bætt á diskinn hjá þeim.

Ríkisstjórn Slóvakíu veit að hún kemst ekki upp með að hlýða ekki fyrirmælunum. Þess vegna lætur hún kjósa að nýju um frumvarpið og er búin að semja við stjórnarandstöðuna um að boða til þingkosninga, gegn því að málið fari í gegn. Stjórnarandstaðan vissi að ríkisstjórnin yrði að gera allt til að koma málinu í gegn, og krafðist þess vegna hæsta mögulega gjalds, þingrofs og kosninga.

Gaman væri að vita hvernig ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrigrænna tæki á sambærilegri stöðu. Þar lysti saman tveimur gríðarlegum kröftum, annars vegar ótrúlegri þrá beggja flokka til að hlýða kröfum frá stórríkjum Evrópu, hins vegar jafnríkum ótta beggja við kjósendur. Ef vísindamenn næðu að rannsaka árekstur þessara tveggja reginkrafta, hefðu þeir líklega getað sparað sér öreindahraðalinn í Sviss.