283. tbl. 15. árg.
Ríkisstjórnin á alltaf einhverja leiki til að gleðja menn. Um mánaðamótin var lagt fram fjárlagafrumvarp. Viku síðar eða svo mætti forsætisráðherra í sínu fínasta pússi á afmælishátíð Háskóla Íslands og tilkynnti að skólanum yrði, umfram hefðbundnar fjárveitingar, færður einn og hálfur milljarður króna til hátíðabrigða. Fréttamenn sem spurðu ráðherrann hvaðan peningarnir ættu að koma, fengu engin svör því Jóhanna vissi ekkert um það.
En peningarnir koma auðvitað úr ríkissjóði, sem lifir á skattpíndum borgurum og fyrirtækjum og er rekinn með stórfelldum halla þessi misserin og hefur safnað miklum skuldum undanfarin þrjú ár, en hafði áður greitt upp allar erlendar skuldir sínar.
Meðal þess sem ríkisstjórnin gerir í fjárlagafrumvarpinu, til að létta byrðar borgaranna, er að breyta reglum svo þeir flytjist hraðar milli skattþrepa – sem er önnur gleðileg nýung núverandi ríkisstjórnar – og greiði þannig hærri skatta. Fram kemur í Morgunblaðinu í morgun að gert er ráð fyrir að tekjuskattur skili ríkinu 1,4 milljörðum króna hærri upphæð á næsta ári en í ár. Það er næstum sama upphæð og Jóhanna Sigurðardóttir var að „gefa“ til háskólans.
Gjafir og framlög ríkisins koma frá skattlögðum borgurum, sem þar með hafa minna milli handanna til að gera það sem þeir sjálfir þurfa eða vilja. Það er í raun það sem þeir biðja um, allir þeir sem heimta hærri ríkisframlög til einhverra „góðra mála“. Að hinn almenni borgari fái minna í eigin vasa, en hærri fjárhæð renni í ríkisvasann og þaðan í vasa þeirra með „góðu málin“. Í raun ætti alltaf að bæta setningunni „og almennir skattgreiðendur hafi að sama skapi minna milli handanna“ – í hvert sinn sem sagt er frá því að einhver hafi heimtað hærri framlög til að grafa göng, styrkja íþróttafélög eða „leiðrétta“ laun einhverra opinberra starfsmanna því aðrir opinberir starfsmenn hafi þegar fengið sína „leiðréttingu“.