282. tbl. 15. árg.
Í nýjasta tölublaði Fiskifrétta er vakin athygli á því að orðið gjafakvóti er ekki skammaryrði lengur heldur sérstök stefna sem nefnd er strandveiðar. Er vísað í erindi Jóns Eðvalds Friðrikssonar framkvæmdastjóra FISK Seafood á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva.
,,Öllum ætti að vera ljóst að skerðing aflaheimilda gefur ekki tilefni til þess að fjölga útgerðaraðilum. Samt er strandveiðikerfi tekið upp og síðan er byrjað að auka aflaheimildir þess þvert á það sem upphaflega var sagt og þær teknar af þeim sem fyrir eru í fiskveiðum.” Jón Eðvald benti á að margir þeirra sem nýttu sér strandveiðikerfið hefðu áður selt frá sér kvóta sína en haldið bátunum. Með tilkomu nýja kerfisins hefðu bátarnir hækkað í verði úr þremur milljónum í níu milljónir vegna strandveiðiheimildanna. Gjafakvóti sé ekki bannorð lengur. ,,Undarlegt er að þegar við kaupum kvóta megum við ekki afskrifa hann, en þarna er kvótaverðið komið inn í bátana og því eru þessi kvótakaup afskrifanleg. Ég býst ekki við að þessir aðilar muni borga mikinn tekjuskatt á næstunni.”
Þegar rætt er um fiskveiðistjórnunarkerfið eru því eignuð flest áföll og fólksfækkun sem sjávarbyggðir landsins hafa orðið fyrir á undanförnum áratugum þótt sú þróun nái miklu lengra aftur en sjálft kerfið.
Fiskifréttir segja svo frá:
Jón Eðvald minnti á að hin mikla skerðing aflaheimilda á undanförnum árum hefði bitnað hart á sjávarplássunum í landinu. Það virtist gjarnan gleymast í umræðunni. Menn létu eins og allt hefði staðið í stað. Þessu til útskýringar sýndi hann tölur um þróun aflaheimilda FISK Seafood í helstu tegundum frá árinu 2004. Þar kom m.a. fram að þorskkvóti fyrirtækisins hefði minnkað um rúman fjórðung, ýsukvótinn um 46%, úthafskarfi um 78% og grálúðukvóti um 44%. Þessar skerðingar jafngiltu tekjumissi fyrirtækisins upp á 3,6 milljarða króna á ári. Af þeirri fjárhæð væri beinn launakostnaður rúmur milljarður á ári sem skipti samfélögin sem fyrirtækið starfaði í miklu máli. Vegna skerðinganna hefði FISK Seafood þurft að fækka skipum og sameina vinnslur.
Auðvitað hefði fiskunum í sjónum ekki fjölgað hraðar, eða fækkað hægar, þótt þeir hefðu verið veiddir í öðru kerfi. Nær væri að ætla að án eignarkvótakerfið með frjálsu framsali hefði þrýstingur um sífellt meiri veiðar verið miklu meiri en í kerfi þar sem verðmæti eignarkvótans er háð styrk fiskistofnanna.