Laugardagur 8. október 2011

280. tbl. 15. árg.     

Það er alltaf verið að segja að íslensku bankarnir hafi verið orðnir alltof stórir. Nú síðast lét Julie Kozack yfirmaður sendinefnar AGS á Íslandi hafa þetta eftir sér. Bankakerfið var auðvitað alltof stórt, sagði hún í viðtali við Fréttablaðið í gær. Hvað eru menn að fara með þessum yfirlýsingum? Hversu stórir mega bankar vera? Kozack útskýrði þetta svo:

Það er alveg ljóst að þáverandi ríkisstjórn tók rétta ákvörðun. Ábyrgðir bankanna voru einfaldlega of miklar til að ríkið gæti fært þær yfir á eigin efnahagsreikning

Ætli sé hægt að komast nær kjarna fjármálakreppunnar en þetta? Það er ekki ætlast til að bankar verði svo stórir að ríkið geti ekki bjargað þeim. Ríkið þarf að geta fært þá með vandræðalausum hætti yfir á eigin efnahagsreikning! Með öðrum orðum líta menn svo á að ríkið muni undantekningarlítið bjarga bönkum. Ef innspýtingar og lausafjárfyrirgreiðsla seðlabanka dugar ekki þá eru bankar velkomnir í hlýjuna á efnahagsreikningi ríkisins. Hvarvetna virðist ætlast til þess að ríkið bæti gjaldþrota einkabönkum á efnahagsreikning sinn, taki þá í fangið og hlúi að þeim þar til þeir geti staðið á eigin fótum á ný.

Þarf þá að koma á óvart að bankamenn séu fífldjarfir? Þeir njóta þess í launum á meðan spilaborgir eru reistar en skattgreiðendur fá rústirnar færðar á sinn efnahagsreikning.

En þótt útrásarbankarnir þrír hafi verið verið of stórir til að sóma sér á efnahagsreikningi ríkissjóðs þá verður ekki hið sama sagt um nokkrar aðrar fjármálastofnanir. Hvað er núverandi ríkisstjórn búin að færa marga sparisjóði, tryggingafélög og minni fjárfestingabanka yfir á reikning hins almenna Íslendings? Og margreyna að gera íslenska skattgreiðendur að ábyrgðarmönnum fyrir Icesave reikningunum.