280. tbl. 15. árg.
Nýlega voru samþykktar breytingar á sveitarstjórnarlögum á Alþingi sem opna fyrir fjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík úr 15 í 23 til 31. Það er víst alltaf verið að leita leiða til að spara hjá hinu oipinbera. Þessi fjölgun er reyndar gamalt stefnumál vinstriflokkanna en þeir fjölguðu borgarfulltrúum í 21 árið 1982 til að draga úr líkum á því að atkvæði á flokkanna þeirra fjóra féllu dauð. Sjálfstæðismenn fækkuðu borgarfulltrúunum aftur í 15 við fyrsta tækifæri, það er við kosningarnar 1986.
Við umræðum um frumvarpið á Alþingi á dögunum andmæltu þingmenn Sjálfstæðisflokksins þessari nýju fjölgun. Ekkert heyrðist hins vegar opinberlega frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins um málið áður en lagafrumvarpið var samþykkt ef frá er talin andstaða eins borgarfulltrúans, Kjartans Magnússonar, sem kom fram í fjölmiðlum. Nokkrum dögum eftir að frumvarpið var samþykkt lýsti Hanna Birna Kristjánsdóttir því yfir á fundi borgarstjórnar að hún væri andvíg fjölguninni.
Hvernig stóð á því að borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna beitti sér ekki gegn þessari fjölgun áður en hún var samþykkt í þinginu? Þá hefði andstaðan hugsanlega komið að gagni.
Hafa einhverjir borgarfulltrúar áhyggjur af því að ná ekki kjöri nema fulltrúum verði fjölgað? Ef svo er í pottinn búið þá eru áhyggjur þeirra réttmætar.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær var sagt frá „nokkur hundruð manna“ mótmælafundi í Bandaríkjunum með þessum orðum: „Andstaða við stríðið í Afghanistan og græðri bandarískra banka og stórfyrirtækja var ofarlega í huga þeirra sem töluðu á mótmælafundi á Frelsistorginu svokallaða í miðborg Washington í dag.“
Hvað ætli hafi verið margir nokkur hundruð manna fundir í Ameríku í gær? Fréttastofu Ríkisútvarpsins tókst auðvitað að þefa uppi fund þar sem róttækir vinstri menn voru að „mótmæla“.