E gill Helgason leggur ýmislegt til þjóðmálaumræðunnar. Í pistli á vef Samfylkingarinnar í dag gælir hann við bann við utanlandsferðum menntaskólanema. Egill vill heldur koma menntskælingum inn í dautt loftið á söfnum heimsborganna eða í besta falli láta þá rigna niður í norskum afdölum.
Pressan er að fjalla um útskriftarferðir menntaskólanema – og ráðagerðir um að banna þær jafnvel. Unglingar hópast til Spánar í þessar útskriftarferðir, aðallega til Benidorm, sumir lenda í alls kyns vandræðum. Benidorm er bær þar sem allt flýtur í áfengi og fíkniefnum. Getur verið stórhættulegur staður. Í ofanálag er bærinn einstaklega ljótur og ómenningarlegur. Hópferð ungmenna þangað er arfaslæm hugmynd – og fyrir marga er hún ekki annað en ávísun á sukk. Væri ekki nær að slíkar ferðir snerust frekar um að skoða söfn í Lundúnum eða Berlín, hallir í Leirudalnum, rústir í Róm eða fagra náttúru í norskum fjörðum? |
Vefþjóðviljinn leyfir sér að vitna í annan texta frá árinu 2009 þessu til andófs.
Þegar ég var ungur var ég haldinn þrálátum misskilningi. Ég trúði því að ef maður færi til útlanda ætti maður að fara á söfn, hljómleika og leiksýningar. Þegar ég fór að ferðast að ráði fínkembdi ég söfn í helstu borgum Evrópu. Fannst ég vera að svíkjast um ef ég staldraði ekki við hvern grip og hverja mynd. Ég uppgötvaði ekki fyrr en síðar að ég hefði átt að vera á einhverri fallegri strönd. Ungur og fallegur á strönd. Það var ekki fyrr en ég var kominn yfir þrítugt að ég uppgötvaði strandlífið. |
Egill Helgason (59) er orðinn ungur á ný!
S veinn Óskar Sigurðsson viðskiptafræðingur hefur vakið á því athygli að undanförnu að hin svonefnda verðtrygging með vísitölu neysluverðs ofmeti í raun þær verðhækkanir sem menn þurfi að láta yfir sig ganga. Þetta skýrist af því að menn geti að sjálfsögðu vikið sér að einhverju leyti undan slíkum hækkunum með því að breyta neyslu sinni. Íslendingar eru sérlegir sérfræðingar í slíkri hegðun eftir áratuga stormasama sambúð með krónunni. Þeir birgðu sig upp af jeppum og sófasettum á meðan gengi krónunnar var hátt en hafa að mestu látið slík kaup eiga sig eftir að krónan féll. Hækkun á verði húsgagna og bíla er engu að síður ein af ástæðum þess að vísitala neysluverðs hækkar.
Sveinn Óskar birti á dögunum graf sem sýnir hvernig eigið fé Íslendinga í íbúðarhúsnæði hefur rokkað undanfarin 13 ár. Þetta graf virðist hafa sannfært marga um að verðtryggingin sé runnin undan rifjum kölska og hafi étið upp eigið fé Íslendinga.
En eins og svo oft segir prósentureikningur ekki alla söguna. Svona hefur eigið fé Íslendinga í íbúðarhúsnæði þróast í krónum á verðlagi hvers árs þegar miðað er við heildarfasteignamat á árunum sem Sveinn Óskar tekur sem dæmi.
Eigið fé Íslendinga í íbúðarhúsnæði hefur með öðrum orðum þrefaldast í krónum talið á þessum tíma. Á sama tíma hefur almennt verðlag tvöfaldast. Í flestum tilfellum hefði slík þróun verið mönnum hagstæð, svo fremi þeir hafi ekki jafnharðan notað hið aukna eigið fé til að slá lán fyrir jeppum og húsbúnaði.
Svona svo eitthvað sé tínt til íbúðareigendum til huggunar.