Miðvikudagur 21. september 2011

264. tbl. 15. árg.

Þ au koma í röðum, furðuviðtölin við Jóhönnu Sigurðardóttur. Alltaf standa fréttamenn eins og þvörur og spyrja einskis, hvaða fjarstæður sem forsætisráðherra lýðveldisins býður þeim upp á.

Á dögunum fullyrti Jóhanna að það hefði verið í samræmi við „ályktun alþingis“, að Ísland beitti ekki neitunarvaldi sínu innan Atlantshafsbandalagsins þegar loftárásir þess á Líbíu voru ákveðnar. Alþingi hafði hins vegar enga ályktun gert um málið. Það þurfti að benda á þetta í marga daga áður en ríkisstjórnarútvarpinu þóknaðist að segja frá því í einni frétt.

Fyrir örfáum dögum var Jóhanna spurð um „diplómatískar þvinganir“ sem Bandaríkjamenn ætla að beita Íslendinga vegna hvalveiða. Í viðtali við Stöð 2, síðastliðinn sunnudag, kvaðst hún „mjög óánægð“ og „afar ósátt“ með þessa ákvörðun Bandaríkjamanna og taldi þær mjög ósanngjarnar þar sem hér á landi væru aðeins stundaðar vísindaveiðar á hvölum. Eins og Björn Bjarnason benti á þá lauk vísindaveiðum við Ísland árið 2007, en hvalveiðar í atvinnuskyni hófust árið 2006. Sennilega er forsætisráðherra landsins í mjög fámennum hópi manna sem ekki hafði frétt af því að hvalveiðar í atvinnuskyni væru hafnar. Það varð til dæmis frekar mikill hávaði þegar Einar K. Guðfinnsson heimilaði veiðar á síðustu dögunum í sjávarútvegsráðuneytinu.

En fréttamönnum finnst allt í lagi að forsætisráðherrann vaði hér reyk.

Í gærkvöldi var Jóhanna í sjónvarpviðtali vegna hugsanlegra málaferla á hendur Bretum vegna hryðjuverkalaga þeirra. Var Jóhanna þá nýstigin út af ríkisstjórnarfundi þar sem ákveðið hafði verið að fela lögfræðingum að kanna grundvöll málshöfðunar, og sagði þetta við fréttamenn: „Það var að vísu gert 2008, þá voru hugmyndir uppi um að sækja skaðabótakröfur á hendur Breta vegna hryðjuverkalaganna og þá var það breskt lögfræðifyrirtæki sem fór yfir það og taldi ekki grundvöll þá til þess að fara í skaðabótamál. Það hefur auðvitað margt skeð síðan. Það var teflt fram að Bretar hefðu líka kröfur á okkur á þeim tíma. Það er auðvitað breytt staða, þannig að það er full ástæða til þess að skoða þetta aftur í þessum hópi lögfræðinga sem er falið þetta verkefni nú…“

Eins og svo oft áður þegar Jóhanna þylur svör sín yfir fréttamönnum, spyrja þeir einskis sérstaks. Hér hefði hins vegar verið ástæða til að spyrja Jóhönnu Sigurðardóttur: Hvaða kröfur höfðu Bretar á „okkur á þeim tíma“ og hvernig er sú staða „auðvitað breytt“? Á Jóhanna við Icesave-kröfurnar? Hafa Bretar fallið frá þeim? Hafa þær verið greiddar? Er Hæstiréttur búinn að dæma um gildi neyðarlaganna? Er búið að selja Iceland-verslunarkeðjuna og aðrar stórar eigur Landsbankans?

Forsætisráðherra fullyrðir að Bretar hafi „á þeim tíma“ átt kröfu á hendur Íslendingum, en sú staða sé nú „auðvitað breytt“. Fréttamenn spyrja einskis.

Hvernig halda menn að fréttamenn létu ef aðrir forsætisráðherrar hefðu aftur og aftur svarað eins og Jóhanna? Halda menn að þá hefði ýmist verið látið nægja að segja frá rangfærslunum og vanþekkingunni í einni stuttri frétt, eða þá, og það hefði verið oftast, alls ekki sagt neitt?