Mánudagur 19. september 2011

262. tbl. 15. árg.

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum stilltu vinstrigrænir upp Sóleyju Tómasdóttur sem efsta manni í Reykjavík, en hún hafði skömmu áður sigrað Þorleif Gunnlaugsson í forvali. Átti hún þann sigur ekki síst að þakka ötulli liðveislu Silju Báru Ómarsdóttur sem lét einskis ófreistað í baráttunni og fór hús úr húsi að leita stuðnings og atkvæða. Eftir frækilega framgöngu Silju Báru við atkvæðasmölunina þótti flestum ljóst að hún ætti heima í þeim hópi sem velja skyldi í „stjórnlagaráð“, til að semja nýja stjórnarskrá handa Íslendingum.

En með Sóleyju Tómasdóttur í broddi fylkingar mátti litlu muna að vinstrigrænir kæmu ekki að manni í borgarstjórn. Menn geta reynt að ímynda sér hvernig horfurnar eru fyrir flokkinn í næstu kosningum, eftir fjögur ár af Sóleyju.

En vinstrigrænir deyja ekki ráðalausir. Þeir eiga nefnilega ráðherra sveitarstjórnarmála. Ögmundur Jónasson hefur nú fengið samþykkt ný sveitarstjórnarlög sem gera ráð fyrir verulegri fjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík. Gæti jafnvel svo farið að þeir verði svo margir að vinstrigrænir nái aftur inn manni næst.

Stjórnarandstaðan náði auðvitað ekki að efna til raunverulegrar baráttu um þetta mál, enda úthaldið búið eftir að hafa fengið skammir í tvo daga fyrir baráttu sína gegn stjórnarráðsfrumvarpi Jóhönnu Sigurðardóttur.

Og ekki er borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins öflugri. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi hefur að vísu andmælt fjölguninni, en aðrir borgarfulltrúar segja lítið sem ekkert. Kannski finnst þeim bara ágætt að borgarfulltrúum fjölgi. Í síðustu borgarstjórnarkosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn minna fylgi en nokkru sinni áður, svo kannski eru fleiri en vinstrigrænir sem fagna fjölgun borgarfulltrúa.

Þ að er að sjálfsögðu alger tilviljun að þegar Samfylkingin hefur tekið upp sérstaka baráttu fyrir því að auðjöfur úr kommúnistalandinu Kína fái að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, þá koma þau í halarófu Aðalsteinn Leifsson, Fréttablaðið, Stöð 2 og Árni Páll Árnason og tala í heilan dag um að erlent tryggingafélag telji andrúmsloft fyrir erlenda fjárfestingu slæmt á Íslandi, og því verði að breyta.