Helgarsprokið 18. september 2011

261. tbl. 15. árg.

S jálfshól er nokkuð vandmeðfarið. Það hefur væntanlega runnið upp fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni þegar hann las grein Ragnheiðar Elínar Árnadóttur í Morgunblaðinu í gær.

Jón Baldvin Hannibalsson var gestur í þættinum Sprengisandi 28. ágúst sl. Til umræðu var tuttugu ára sjálfstæðisafmæli Eystrasaltsríkjanna, en eins og mikið hefur verið rætt við þessi tímamót voru Íslendingar fyrstir til að viðurkenna þau sem sjálfstæð ríki og taka upp stjórnmálasamband hinn 26. ágúst 1991. Í þættinum svaraði Jón Baldvin án þess að hika spurningu Sigurjóns Egilssonar um hvaðan frumkvæðið að því að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna hefði komið, með þessum orðum: „Það kom frá mér og það voru ákveðnar ástæður fyrir því sem var bara niðurstaða af þróun mála.“

En eins og Ragnheiður Elín rekur er utanríkisráðherrann fyrrverandi full drjúgur með sig hvað þetta varðar.

Þetta þótti mér nokkuð athyglisverð yfirlýsing, sé einmitt litið til þróunar mála á Alþingi á þeim tíma. Ekki síst í ljósi þess að ríkisstjórnin sem hinn sami Jón Baldvin sat í hindraði árið áður að þingsályktunartillaga um viðurkenningu á sjálfstæði Litháens yrði rædd í þinginu. Tillöguna lagði þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, fram ásamt þingflokki sínum. Staðreynd málsins er sú að Sjálfstæðisflokkurinn átti frá upphafi frumkvæði að viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Bæði þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, og forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, voru andvígir því að Ísland færi hraðar en hinar Norðurlandaþjóðirnar og NATO-ríkin í því að viðurkenna sjálfstæði þeirra. Um þetta vitna Alþingistíðindi og fjölmiðlar á þessum tíma. Við umræður um utanríkismál í mars árið 1990 sagði Jón Baldvin m.a. að viðurkenning á sjálfstæði Litháens gæti þýtt að Gorbatsjov yrði felldur frá völdum. Viturleg stefna væri að forðast í hvívetna að magna árekstra. (Mbl. 30. mars 1990 bls. 27.)

Ragnheiður segir svo frá heimsókn Þorsteins Pálssonar formann Sjálfstæðisflokksins og Kjartans Gunnarssonar framkvæmdastjóra til Eistlands og Litháens í september 1990 þar sem Þorsteinn ávarpaði setningarfund þjóðþingsins í Litháen.

Í kjölfar heimsóknarinnar lagði formaður Sjálfstæðisflokksins fram þingsályktunartillögu um viðurkenningu á sjálfstæði allra Eystrasaltsríkjanna. Í umræðum um tillöguna kom skýrt fram að Jón Baldvin taldi enga þörf á sérstakri viðurkenningu af Íslands hálfu og færði þau rök fyrir afstöðu sinni að viðurkenning Dana frá 1921 væri enn í gildi og því þyrfti ekki að árétta hana af Íslands hálfu.

Það var svo á sérstökum fundi formanna allra stjórnmálaflokka 8. febrúar 1991 að samkomulag náðist um að utanríkisnefnd flytti þingsályktunartillögu um að ítreka formlega viðurkenningu Íslands frá 1921. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sættist á þá málsmeðferð enda fól hún í sér að efnislega var tekið undir tillögur hans í málinu.