Föstudagur 16. september 2011

259. tbl. 15. árg.

Í gær hélt Ögmundur Jónasson mikla ræðu um þjóðaratkvæðagreiðslur. Hann var afar fylgjandi þeim. „Í mínum huga á almenningur að geta kosið um allt sem hann lystir“, sagði Ögmundur. Hann kvaðst meira að segja velta fyrir sér hvort leggja eigi í þjóðaratkvæði hvort kínverskur auðmaður megi kaupa Grímsstaði á Fjöllum

Síðan er liðinn rúmur sólarhringur. Enn hefur enginn fjölmiðill fjallað um hvaða samhljómur sé milli gjörða og fagurgala Ögmundar í málinu. Hann hefur nefnilega nokkrum sinnum þurft að taka raunverulega ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslur, og þá ekki þurft að láta sér nægja heróp á ráðstefnum.

Þegar troðið var í gegnum alþingi ákvörðun um að Ísland sækti um inngöngu í erlent ríkjabandalag og að erlendur sáttmáli yrði æðstu lög á Íslandi, var lagt til á alþingi að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um hvort sótt skyldi um aðild. Ekki þarf að efast um að meðal landsmanna var mikill áhugi á því að fá fram slíka kosningu. Tillagan var felld á þingi. Ögmundur Jónasson var einn þeirra sem sagði nei.

Þegar Icesave var þrýst í gegnum alþingi, var lagt til að málið yrði lagt fyrir þjóðaratkvæði. Var það gert bæði þegar Icesave II var til umræðu sem og Icesave III. Í bæði skiptin var tillagan felld á þingi. Í bæði skiptin sagði Ögmundur Jónasson nei við tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Það er sjálfsagt að geta þess, að Ögmundur tók ekki þátt í árásum flokksbræðra sinna á Ólaf Ragnar Grímsson þegar Ólafur Ragnar kvaðst hafa neitað að staðfesta Icesave-lögin. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd, að þegar Ögmundur fékk tækifæri til þess á þingi að stuðla að því að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um gríðarlega mikilvæg mál, Evrópusambandsumsókn og Icesave, þá greiddi hann jafnan atkvæði gegn því.

Enginn núverandi þingmanna Samfylkingar og Vinstrigrænna studdi að landsmenn fengju að kjósa um þessi umdeildu mál. En í orði kveðnu eru þeir auðvitað miklir talsmenn beins lýðræðis og allra hinna frasanna.

En þeir geta líka jafnan treyst á gagnrýnisleysi íslenskra fréttamanna þegar kemur að tvískinnungi íslenskra vinstrimanna.