Miðvikudagur 14. september 2011

257. tbl. 15. árg.

I llugi Gunnarsson er að mæta aftur til starfa á Alþingi eftir nær tveggja ára fjarveru. Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í fyrrakvöld veik hann að grein sem hann skrifaði með Bjarna Benediktssyni í Morgunblaðið 26. febrúar 2008, rúmum sjö mánuðum fyrir fall íslensku bankanna. Þar sagði:

Að undanförnu hefur ríkt mikil óvissa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og hlutabréfavísitölur fallið víðs vegar um heiminn. Við höfum ekki farið varhluta af þeirri þróun og reyndar hefur hún verið ýktari hér á landi, meðal annars vegna þess hversu háð við erum fjármálastarfsemi ýmiss konar og hlutfall fjármálafyrirtækja á hlutabréfamarkaði hátt. Kreppan sem nú er á hinum alþjóðlega lánsfjármarkaði er íslensku bönkunum erfið og álag á skuldatryggingar bankanna er mjög hátt. Sú hætta steðjar nú að hagkerfinu að íslensku bönkunum gangi illa að afla þess fjármagns sem þeir þurfa vegna starfsemi sinnar á næsta ári. Ef ekkert breytist til hins betra á fjármagnsmarkaði og ekki tekst að auka traust erlendra markaðsaðila verður fjármögnun bankanna óheyrilega dýr eða í versta falli ómöguleg.

Þessi lýsing er fór nærri um það sem síðar gerðist þótt ýmislegt annað í greininni geri það ekki. En viðbrögðin við þessari spá um fjármögnun bankanna voru einnig áhugaverð. Björgvin G. Sigurðsson hafði verið viðskiptaráðherra í níu mánuði þegar hún birtist. Hann tjáði sig um greinina í viðtali við Morgunblaðið degi síðar.

Björgvin segir það óþarfa að mála myndina dekkri en hún er. Hann segist telja að staða fjármálafyrirtækjanna sé ekki eins slæm og sú mynd sem er dregin upp í grein Illuga og Bjarna. „Bankarnir búa við sömu aðstæður og önnur fjármálafyrirtæki sem er kreppan á alþjóða-lánamörkuðum og allt of hátt skuldatryggingaálag en að öðru leyti standa þeir býsna vel og það er óvarlegt að draga upp dekkri mynd af ástandinu en það er. Það er frekar að það auki á byrðar fjármálafyrirtækja en að það létti þær.

Engin ástæða til að draga upp of dökka mynd af stöðu bankanna sagði viðskiptaráðherrann sjö mánuðum fyrir fall þeirra. Það gæti aukið á vanda þeirra.

Illugi og Bjarni lögðu einnig í grein sinni fram tillögur um breytingar á peningamálastefnunni. Meðal annars að horfið yrði frá verðbólgumarkmiði Seðlabankans; hætt yrði tilraunum til að halda gengi krónunnar uppi með gríðarlegum vaxtamun við útlönd. Um þær tillögur sagði viðskiptaráðherrann þáverandi:

Grein þeirra er ágæt samantekt á þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin er að vinna að nú þegar fyrir utan tillögu þeirra um peningamálastefnuna. Ég tel að það sé ekki tilefni til að víkja frá peningamálastefnunni við þessar aðstæður. Ég er þeirrar skoðunar að það væri óvarlegt að hrapa að slíkri niðurstöðu.

Engin ástæða til að víkja frá peningamálastefnunni, sagði viðskiptaráðherrann snemma árs 2008. Sjö mánuðum síðar féll gjaldmiðilinn – um 50% segir sagan – en enginn veit í raun hve mikið því síðan hefur verið bannað að bera hann saman við aðra mynt.

En þetta er ekki rifjað upp hér til að sýna Björgvin G. Sigurðsson úti á þekju. Það áhugaverða við þessa stöðu vorið 2008 er spurningin: hvað hefði viðskiptaráðherrann átt að segja við þessum tillögum? Ef hann gerði sér grein fyrir því, átti hann að segja það hátt og snjallt að bankarnir væru komnir út á ystu nöf? Það vita allir hvað það hefði þýtt. Bankarnir hefðu horfið sama dag.

Og ekki var vandi viðskiptaráðherrans vegna krónunnar minni. Ekki var nokkur leið fyrir hann að segja að það gengi ekki lengur að halda uppi gengi hennar með gríðarlegum vaxtamun við útlönd, lækka þyrfti vexti og leyfa krónunni að síga með tilheyrandi verðhækkunum innanlands.

Hér kristallast vandinn sem fylgir hinni miklu þátttöku ríkisvaldsins á fjármálamörkuðum. Ríkisvaldið hefur tekið sér það furðulega hlutverk að sjá til þess að allt fari vel í rekstri fjármálafyrirtækja. Ríkisvaldið þykist hafa sett upp eftirlit og alls kyns íhlutun og þjónustu við fjármálafyrirtæki sem komi í veg fyrir að þau fari sér að voða. Það þýðir einfaldlega að menn neyðast til að breiða yfir hvern vanda á meðan reynt er að leysa hann.

Ekki geta menn sagt sannleikann og látið allt fara samstundis um koll.