Laugardagur 10. september 2011

253. tbl. 15. árg.

S agt var frá því í fréttum nýlega að hagnaður hefði verið af rekstri Strætós bs. sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga. Hagnaðurinn nam 8 milljónum króna á fyrri helmingi ársins. Eigendur fyrirtækisins geta þá farið að hlakka til arðgreiðslu að loknum næsta aðalfundi. Ef sami gangur verður síðari hluta ársins og allur hagnaðurinn verður greiddur út sem arður gæti Reykjavíkurborg til að mynda átt von á 10 milljóna króna arðgreiðslu. Búhnykkur. Árlegt framlag Reykjavíkurborgar til Strætós bs. er hins vegar um 1.800 milljónir króna.

Er þá ótalin sérstök vegalagning borgarinnar fyrir hina tómu gulu vagna en þeir eru einu farartækin í borginni sem þurfa einkavegi til að komast frá A til B. Er leitun að annarri eins sóun sem þeirri að sjá gulu ferlíkin fara nær mannlaus um sérstakar akreinar. Og hvað segja umhverfisverndarmenn um allt plássið sem fer undir þessar prívatgötur fyrir vagnana? Eða útblásturinn frá þessum olíuhákum?

Í tilkynningu frá Strætó vegna hagnaðarins er þó sagt að brugðið geti til beggja vona í rekstrinum á síðari hluta ársins. Þannig gæti það bitnað á afkomunni ef farþegum fjölgi…