Föstudagur 9. september 2011

252. tbl. 15. árg.

N okkrir einstaklingar hafa tekið sig saman um undirskriftasöfnun fyrir því að aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu verði lögð til hliðar. Söfnunina má finna á vefnum skynsemi.is. Þar segir um ástæður hennar.

Evrópusambandið hefur breyst frá því Alþingi samþykkti umsóknina og óvissa ríkir um framtíð þess og myntbandalagsins. Aðildarferlið er kostnaðarsamt og dreifir athygli stjórnsýslunnar frá mun brýnni viðfangsefnum. Skoðanakannanir sýna yfirgnæfandi og vaxandi andstöðu landsmanna við aðild.

Hópurinn vísar jafnframt í að í júní 2011 framkvæmdi Capacent Gallup könnun fyrir Heimssýn þar sem spurt var: Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú að Ísland dragi til baka umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu?

Niðurstaðan var sú að meirihlutinn, eða 51% er hlynntur því að draga umsóknina til baka. Ef litið er framhjá óákveðnum þá eru 56% hlynnt en 44% andvíg því að draga umsóknina til baka.

Enginn stjórnmálamaður hefur talað oftar og meira um nauðsyn þess að fara að vilja fólksins en Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Nú veit Vefþjóðviljinn auðvitað ekki hvernig Jóhanna mælir vilja fólksins. Eini flokkurinn sem vildi í ESB fyrir síðustu kosningar hlaut innan við þriðjungsfylgi. Allar kannanir þar sem spurt er vafningalaust um afstöðu manna til aðildar benda einnig til mikillar andstöðu við aðild.